Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

70.000 skammtar af bóluefni væntanlegir í mars

15.02.2021 - 11:45
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Ísland fær meira af bóluefni í gegnum samninga sína við Evrópusambandið en áður var talið, líkt og greint var frá í fréttum í síðustu viku. Í lok mars eru væntanlegir 70.000 skammtar og þá eru ekki meðtaldir skammtar frá AstraZeneca. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í morgun.

Framleitt hefur verið meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Þannig að ég held að við getum verið vongóð um það að við munum fá bóluefni hraðar en við  höfum talið til þessa,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í morgun. 

Hér á landi er tilbúin dreifingaráætlun út mars. „Samkvæmt þeim fyrirætlunum sem að fyrir liggja, þá munum við  fá rúmlega 70.000 skammta í lok mars en inni í þeim tölum er ekki magn bóluefna frá AstaZeneca í mars. Þannig að það er ýmislegt óljóst í þessu,“ segir sóttvarnalæknir.

Stjórnvöld í Danmörku stefna að því að hafa lokið bólusetningu í lok júní og kveðst Þórólfur vona að það sama verði uppi á teningnum hér á landi. „Þannig held ég að okkur muni ganga betur að bólusetja næstu mánuði en talið hefur verið en það er erfitt að segja nákvæmlega hversu stóran hluta þjóðarinnar búið verður að bólusetja í sumar. Þetta ræðst allt af þeim dreifingaráætlunum sem að við munum fá frá framleiðendum.“