Rýma svæði á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu

14.02.2021 - 20:32
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Austurlandi
Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að rýma reiti 4 og 6 á Seyðisfirði undir Strandartindi yst í sunnanverðum Seyðisfirði, vegna hættu á votum snjóflóðum. Svæðin má sjá á snjóflóðarýmingarkortinu sem fylgir fréttinni. Rýming tekur gildi klukkan 21:00 í kvöld. Veðurstofan hefur lýst yfir hættustigi á Seyðisfirði en óvissustig vegna ofanflóðahættu hefur verið í gildi á Austurlandi öllu frá því klukkan átta í gærkvöldi og gildir enn.

Íbúar á rýmingarsvæðum hafa þegar verið upplýstir, sjö manns í þremur húsum. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að Veðurstofan meti stöðuna aftur snemma í fyrramálið. Hann segir að rýmingin hafi gengið vel og að íbúar hafi fengið gistingu annars staðar.

„Íbúar voru vel upplýstir um að það gæti komið til rýminga í dag eða í kvöld þannig að það hafa ekki verið nein vandamál. Og á þessu svæði hafa verið rýmingar áður. Þetta er snjóflóðasvæði en ekki skriðusvæði svo þetta er ekki sama svæði og var rýmt í desember,“ segir hann. 

Ekki er gert ráð fyrir frekari rýmingu að svo stöddu en Veðurstofan fylgist vel með. Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar sem staðsett er á Reyðarfirði, verður fært yfir til Seyðisfjarðar í öryggisskyni en Kristján segir ekki útlit fyrir að fleiri viðbragðsaðilar verði sendir á staðinn að svo stöddu.

Töluverður snjór er í fjallshlíðum á Seyðisfirði en í dag hefur verið rigning uppá fjallatoppa og snjórinn sjatnað og blotnað í honum. Búist er við áframhaldandi rigningu í nótt og að ákefðin verði jafnvel meiri en í dag. Vot flekahlaup féllu í Hánefsstaðafjalli í dag og búist við að fleiri flóð geti fallið þegar meira blotnar í snjónum í rigningu og leysingum í nótt.