Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fjarðarheiði lokuð og hreindýrahjarðir víða við vegi

14.02.2021 - 16:51
Innlent · færð · Hreindýr · veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjarðarheiði er lokuð og ófært á Vatnsskarði eystra. Þar er beðið með mokstur vegna veðurs. Hreindýrahjarðir eru víða við vegi og hafa meðal annars sést í Jökuldal, Fagradal, Reyðarfirði og í Álftafirði. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar og vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát.

Vetrarfærð er um norðan- og austanvert landið, þó aðallega á fjallvegum en víða er orðið greiðfært um landið sunnanvert. 

Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Norðausturlandi. Á Norðurlandi er greiðfært að mestu á láglendi en hálka eða hálkublettir á fjallvegum. Siglufjarðarvegur er lokaður frá Ketilási að Siglufirði.

Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður og á Holtavörðuheiði hefur umferðarhraði verið lækkaður niður í 50 km/klst og þar má búast við lokunum á næstu vikum vegna vinnu á svæðinu. 

Enn er í gildi óvissustig vegna krapastíflu og flóðhættu í Jökulsá á Fjöllum og óvissustig vegna ofanflóðahættu á Austurlandi. Þá er í gildi gul viðvörun vegna úrkomu og hvassviðris á Austfjörðum til klukkan fjögur í nótt og á Suðausturlandi til klukkan þrjú í nótt.