Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biður fólk að halda sig heima eftir að þrjú smituðust

14.02.2021 - 09:07
epa08752151 New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern speaks at the New Zealand Labour party election night event in Auckland, New Zealand, 17 October 2020. Jacinda Ardern has won a second term in New Zealand's general election.  EPA-EFE/DAVID ROWLAND AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands. Mynd: EPA-EFE - AAP
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, hefur fyrirskipað útgöngubann um nætur og takmarkanir á opnun skóla og fyrirtækja í Auckland eftir að þriggja manna fjölskylda greindist með COVID-19. Fólki annars staðar á Nýja Sjálandi hefur verið fyrirskipað að nota andlitsgrímur í almenningssamgöngum og hundrað manna fjöldatakmarkanir hafa tekið gildi. Takmarkanir hafa verið settar við samgangi milli Auckland og annarra hluta Nýja Sjálands.

Nýsjálendingar hafa gripið til harðra ráðstafana til sporna gegn COVID-19 smiti í landinu. Dauðsföll eru 25 af völdum sjúkdómsins en landsmenn eru um fimm milljónir. 

Útgöngubannið er það fyrsta sem stjórnvöld á Nýja Sjálandi hafa fyrirskipað í hálft ár. Ardern sagði að það væri fyrst og fremst til að ganga úr skugga um að smitin tengdust ekki nýjum og meira smitandi afbrigðum kórónuveirunnar. „Við erum fyrst og fremst að biðja fólk í Auckland um að halda sig heima og draga úr hættu á útbreiðslu veikinnar,“ sagði Ardern. 

Par og dóttir þeirra greindust með COVID-19. Konan vinnur hjá fyrirtæki sem sér um þvott og veitingar fyrir flugfélög í millilandaflugi. Hún og dóttirin greindust með veikina í gær og faðirinn í dag.