Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áfram óvissustig þrátt fyrir betri veðurhorfur

14.02.2021 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Óvissustig er áfram í gildi á Austurlandi þótt svo veðurspá líti betur út fyrir Seyðisfjörð en hún gerði í gær. Munurinn er þó ekki mikill samkvæmt upplýsingum frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og því er áfram fylgst vel með.

Í nótt mældist rúmlega 25 millímetra úrkoma á Fáskrúðsfirði og er það mesta úrkoma hingað til í vatnsveðrinu sem gengur yfir Austurland. Úrkoman er orðin rúmlega 20 millímetrar á Eskifirði og í Neskaupstað. Á Seyðisfirði hefur úrskoma mælst sautján millímetrar en minni úrkoma mælist á nýja úrkomumælinum í Botnum. Búist var við að allt að 200 millimetrar gætu fallið frá því gær og til miðnættis.

Vel er fylgst með öllum ummerkjum um veður og áhrif þess. Snjóathugunarmenn eru að störfum á öllum ofangreindum stöðum. Að auki er fylgst með gögnum úr GPS mælum, alstöð og vatnshæðarmælum á Seyðisfirði ásamt veður og snjómælum.

Hjá Veðurstofunni fengust þær upplýsingar skömmu fyrir tíu að engar fregnir hefðu borist af skriðum eða snjóflóðum fyrir austan. Þá var ennþá frekar kalt, sem dregur úr hættu á skriðuföllum, en veðurfræðingar gera ráð fyrir að það hlýni á næstu klukkustundum.