Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp

13.02.2021 - 20:47
epa08821908 (FILE) - US President Donald J. Trump speaks on the election night at an event at the White House in Washington, DC, USA, 04 November 2020 (15 November 2020). President Donald Trump has finally admit to losing the election in a tweet, after days of refusing to concede to President-elect Joe Biden.  EPA-EFE/CHRIS KLEPONIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - CONSOLIDATED NEWS PHOTOS POOL
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var nú rétt í þessu sýknaður af ákæru um embættisglöp í öldungadeild Bandaríkjaþings. Trump er fyrsti forsetinn í sögunni til að vera ákærður tvisvar til embættismissis. Sjö þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði gegn forsetanum en Demókratar hefðu þurft að ná 17 Repúblikönum á sitt band til þess að sakfella Trump.

57 með og 43 á móti

57 öldungadeildarþingmenn studdu tillöguna um að sakfella forsetann fyrrverandi en 43 greiddu atkvæði gegn því. Til þess að sakfella hann hefði þurft aukinn meirihluta; tvo þriðju atkvæða. Repúblikanaþingmennirnir sjö sem greiddu atkvæði með sakfellingu voru Richard Burr, Bill Cassidy, Susan Collins, Lisa Murkowski, Mitt Romney, Ben Sasse og Pat Toomey. 

Trump var ákærður þann 13. janúar fyrir að hafa hvatt mótmælendur til árásar á þinghúsið í Washington 6. janúar. Réttarhöldin hafa staðið yfir frá því á þriðjudag. Sækjendur og verjendur luku framsögu í gær og í gærkvöldi gafst þingmönnum kostur á að spyrja spurninga. 

Réttarhöldin tóku óvænta stefnu í dag þegar sækjendur fóru fram á að vitni yrðu kölluð til, aðallega vegna símtals sem Trump er sagður hafa átt við flokksbróður sinn Kevin McCarthy á meðan múgur stuðningsmanna hans lét öllum illum látum inni í þinghúsinu. 

Fyrr í kvöld var þó samið um að vitni yrðu ekki kölluð fyrir þingið og að loknum lokaorðum sækjenda og verjenda greiddu þingmenn atkvæði.