Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Sumir eru heppnir og fá tækifæri til að kveðjast“

Mynd: RÚV / RÚV

„Sumir eru heppnir og fá tækifæri til að kveðjast“

13.02.2021 - 09:38

Höfundar

„Þegar foreldri deyr er svo margt sem tapast úr minninu og er bara horfið,“ segir Björn Halldórsson rithöfundur. Hann á það sameiginlegt með aðalsöguhetju nýrrar skáldsögu sinnar að hafa misst föður sinn eftir glímu við veikindi. Bókin fjallar um feðga sem fara í hinsta bíltúrinn til að gera upp fortíðina og tengjast.

Stol nefnist fyrsta skáldsaga Björns Halldórssonar en hann gaf út smásagnasafnið Smáglæpir, árið 2017. Sagan segir frá feðgum sem fara hringferð um landið og reyna að ná saman því faðirinn er dauðvona.

Baddi flytur heim frá New York eftir erfið sambandsslit og ákveður að verja tíma með veikum föður sínum í millibilsástandinu. Hann áttar sig á því að Hörður faðir hans, sem er með heilæxli sem hefur áhrif á málstöðvar hans, á ekki langt eftir og þeir líta því á bíltúrinn sem lokatækifæri þeirra til að tengjast. Sagan lýsir margs konar stoli, meðal annars þverrandi tíma feðganna og málstoli föðurins. Björn kíkti í Kiljuna og sagði frá bókinni.

Að sleppa taki á fortíðinni

Um titil bókarinnar segir höfundurinn: „Þeir eru held ég komnir á þennan stað sem feðgar lenda oft í, þar sem þeir eru bara orðnir svona kumpánar og ekki endilega að velta sér upp úr fortíðinni eða slíku. Þeir gera alltaf ráð fyrir að það sé tími fyrir það en svo er hann allt í einu horfinn,“ segir Björn. „Að sama skapi er tungumál og hæfileikar Harðar til að eiga þetta samtal bara farnir. Þannig að Baddi þarf að sætta sig við það og í rauninni finna sátt í því, og sleppa taki á fortíðinni.“

Erfiðara að ná ekki að kveðja

Björn deilir þeirri reynslu með Badda í bókinni að hafa misst foreldri og segir hann það afar sérstaka upplifun sem risti djúpt. Þá sé afar dýrmætt að fá tækifæri til að kveðjast áður en foreldrið fellur frá. „Sumir eru heppnir og fá tækifæri til að kveðjast. Aðrir eru ekki heppnir, þar sem þetta gerist skyndilega, og ég held það sé erfiðara en það sem Baddi og Hörður ganga í gegnum, eins erfið og sú ferð er.“

Þegar foreldri deyr hverfur svo margt

Bókin fjallar á margan hátt um minningar og virði þeirra. Björn flakkar um í tíma í sögunni og fléttar inn í frásögnina af ferðalaginu minningarbrotum úr fortíðinni. „Í hvert sinn sem einstaklingur deyr er svo margt sem hverfur úr heiminum við það,“ segir hann. „Allar sögurnar og allt sem maður hefði viljað geta búið að og hafði áhyggjur af, því þau sáu um að hafa á hreinu. En þegar foreldri deyr er svo margt sem tapast úr minninu og er bara horfið. Það er horfið úr heiminum og þá byrjarðu að horfa á minni og tíma á allt annan máta.“

Þegar náinn aðstandandi er dauðvona sé tilhneigingin gjarnan að ríghalda í hvert augnablik og þá takist ekki að njóta þess eins og hægt væri. „Þú reynir að gleypa allt sem þú getur þessa síðustu mánuði en það getur líka valdið því að þú missir takið á núinu og þessu augnabliki sem er að líða sem þið eigið saman.“

Missti líka föður sinn úr heilaæxli

Þó Björn deili reynslu með Badda í bókinni segir hann söguna alls ekki vera um sig. „En ég vissulega kvaddi föður minn úr heilaæxli árið 2013 og ég tengi við tilfinningaferðalagið sem Baddi fer í gegnum þegar hann er að kveðja föður sinn,“ segir hann. Til þess að fá fjarlægð á söguna, sem hann taldi sig þurfa til að koma frásögninni og tilfinningunum frá sér, skapaði hann karaktera, persónur og aðstæður sem eru fullkominn uppspuni og ekki skyldar honum sjálfum.

Byrjaður á nýrri skáldsögu

Baddi í sögunni er nýhættur með kærastanum sínum og er fluttur tímabundið heim frá New York. „Hann er svolítið skipreka á Íslandi. Er nýsnúinn aftur og draumarnir sem hann fór út með hafa pínkulítið hrunið,“ segir Björn sem sjálfur var í New York þegar hann skrifaði bókina. „Það var töluvert eftir að pabbi dó en ég upplifði þessa fjarlægð sem maður finnur við það þegar maður er svona langt í burtu frá Íslandi.“

Björn er að vinna í nýrri skáldsögu þessa dagana en hugmyndin að henni, líkt og hugmyndin að bæði Stoli og Smáglæpum, er úr lokamöppu sem hann skilaði í ritlistarnámi sínu við háskólann í Glasgow.

Egill Helgason ræddi við Björn Halldórsson í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Ég held að ritstífla sé ekkert annað en kvíði“

Bókmenntir

Ástin getur verið kjarnorkusprengja í blóði fólks