Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ganga í hús og tryggja að íbúar séu í viðbragðsstöðu

13.02.2021 - 20:31
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
„Það eru allir í viðbragðsstöðu til að rýma í fyrramálið ef til þess kemur,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, í samtali við fréttastofu. Klukkan átta í kvöld tók gildi óvissustig á Austurlandi vegna ofanflóðahættu og búist er við að í fyrramálið komi í ljós hvort þurfi að rýma ákveðið svæði á Seyðisfirði.

Kristján segir að íbúum hafi verið send sms-skilaboð um óvissustigið og að nú sé gengið í hús á hugsanlegu rýmingarsvæði til þess að tryggja að fólk sé í viðbragðsstöðu.

„Það er fylgst vel með og það verða allir tilbúnir ef til þess kemur að þurfi að rýma,“ segir hann og að sérfræðingar á Veðurstofunni taki stöðuna á fundi klukkan átta í fyrramálið, og fyrr ef þurfa þyki. 

Spáð er vaxandi úrkomu á Austurlandi, rigningu á láglendi en slyddu eða snjókomu til fjalla til að byrja með. Á morgun hlýnar og þá gæti rignt upp í fjallatoppa. Úrkoman gæti orðið 100 til 200 millimetrar. Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands fylgist með aðstæðum á staðnum með sjálfvirkum mælitækjum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV