Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk fari bæði í Covid-próf úti og tvöfalda skimun hér

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli vill herða landamæraaðgerðir. Til greina kemur að skylda alla farþega til að framvísa neikvæðu Covid-prófi, áður en flogið er til Íslands eða láta farþega bíða á flugvellinum eftir niðurstöðu fyrri skimunar. Nýleg könnun sem gerð var á landamærunum bendir til þess að 11% farþega komi hingað í þeim tilgangi að ferðast um landið.

Góð staða

Ísland er eina græna landið í Evrópu. Smit eru í lágmarki, enginn greindist innanlands í gær, einn á landamærunum og beðið mótefnamælingar. Um miðjan janúar var reglum á landamærum breytt, allir farþegar skyldaðir í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli og sá möguleiki að segjast ætla í tveggja vikna sóttkví í stað skimunar afnuminn. „Það var mikill léttir fyrir okkur,“ segir Sigurgeir SIgmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, en hann vill ekki láta þar við sitja.  

Sóttkvíarhótel eða bið á vellinum

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagðist í vikunni ætla að senda heilbrigðisráðherra tillögur, strax á næstu dögum, um frekari aðgerðir á landamærunum. Sigurgeir og félagar hans á Keflavíkurflugvelli unnu þessar tillögur í samráði við sóttvarnalækni og landamæradeild ríkislögreglustjóra. „Þessi tvöfalda sýnataka sem er hér hefur sýnt sig að vera alveg gríðarlega gott verkfæri til að halda landamærum öruggum, en það eru alltaf einhverjar smugur og þetta byggist alltaf á trausti til fólks, langflestir standa undir því en það eru alltaf þessir fáu sem gera það ekki, það er okkar hlutverk þá að koma með tillögur til að ná utan um þá.“ 

Neikvætt Covid-próf

Aðaltillagan felst í því að láta alla farþega framvísa neikvæðu Covid-19 prófi áður en þeir fljúga hingað til lands, það myndi þá vera viðbót við tvöföldu skimunina. Það kemur líka til greina að láta fólk bíða niðurstöðu fyrri skimunar á flugvellinum, í allt að 12 klukkustundir, eða tékka sig beint inn á sóttkvíarhótel við komuna til landsins. Það er líka verið að skoða hvernig megi tryggja að það náist í fólk sem á að vera í sóttkví og koma í veg fyrir að ættingjar sæki á völlinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson

Einn af hverjum tíu kemur til að ferðast

Frá áramótum hafa 10 þúsund farþegar komið til landsins, flestir frá Póllandi, næstflestir frá Danmörku. Nýleg könnun á landamærunum sýnir að flestir koma til að vinna, næstflestir eru að koma heim. Sumir koma til að heimsækja ættingja en 11 prósent segjast vera ferðamenn. 

Samtök ferðaþjónustunnar segja komur ferðamanna nú bundnar við örfáa, litla hópa frá Evrópu, þau sjá enga ástæðu til að herða reglur á landamærunum og sumum finnst kannski skrítið að vilja herða reglurnar núna þegar það eru svona fá smit, Sigurgeir finnst það aftur á móti borðleggjandi. „Það er ekkert skrítið, landamærin eru eina leiðin fyrir veiruna inn í landið þannig að það er bara allt rétt við að reyna að halda þeim sem þéttustum.“