Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Engin mistök viðurkennd en hámarksbætur samt greiddar

Sjúkratryggingar Íslands hafa ákveðið að greiða ekkju manns sem lést eftir útskrift af Landspítalanum árið 2019 hámarksbætur. Landspítalinn telur að engin mistök hafi verið gerð í málinu en lögmaður ekkjunnar segir augljóst að svo hafi verið.

Páll Heimir Pálsson, krabbameinssjúkur maður með blóðtappa, var sendur heim af bráðamóttöku Landspítalans í nóvember árið 2019, að því er virtist vegna álags á deildinni. Hann lést á heimili sínu skömmu síðar. Bryndís Skaftadóttir, ekkja hans, sagðist í fréttum í janúar í fyrra hafa fengið þau svör á spítalanum að hann hefði verið ranglega greindur og útskrifaður of snemma. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist harma málið og eftir umfjöllun fréttastofu ákvað Landlæknir að krefjast skýringa á hvers vegna Landspítalinn tilkynnti ekki um atvikið.

Bryndís hefur nú fengið svör, bæði frá Landspítalanum og frá Sjúkratryggingum Íslands.

„Svör Landspítalans eru á þá leið að tjónþoli hafi verið útskrifaður með eðlilegum hætti og að það hafi raunverulega ekki verið neitt við það að athuga,“ segir Sæþór Fannberg Sæþórsson, lögmaður Bryndísar.

Í svari Landspítalans til Landlæknis segir orðrétt: 

Út frá greinargerðum og öðrum gögnum sem fyrir liggja í málinu er það mat Landspítala að starfsfólki spítalans hafi hvorki orðið á mistök né sýnt af sér vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu til Páls heitins. 

Sæþór segir að Sjúkratryggingar Íslands séu hins vegar ekki á sama máli.

„Niðurstaða Sjúkratrygginga er sú að um hafi verið að ræða lungnarek eða blóðtappa og að þessi blóðtappi hafi átt að vera læknum kunnur vegna fyrri sögu og vegna þess að aðstandendur tjónþola bentu ítrekað á það.“

Þannig að samkvæmt Sjúkratryggingum hefði Páll þá átt að fá aðra meðferð?

„Já. Meðferðin á meðan hann liggur inni benti til þess að það væri lungnarek og niðurstaða greiningar hefði átt að vera sú að hann hefði ekki átt að vera útskrifaður.“

Snýst ekki um peninga

Niðurstaða Sjúkratrygginga er því sú að greiða skuli Bryndísi hámarksbætur sem Sjúkratryggingar greiða út samkvæmt lögum, eða rúmar ellefu milljónir króna í þessu tilfelli.

„Þegar maður les niðurstöðurnar svona svart á hvítu, þá liggur náttúrulega í augum uppi að þarna hafi átt sér stað mistök,“ segir Sæþór.

Málið er nú til endanlegrar skoðunar hjá Embætti landlæknis. Sæþór segir að sá þáttur snúist fyrst og fremst um að fá viðurkennt að mistök hafi verið gerð.

„Já í grunninn snýst þetta mál um viðurkenningu á þessum atburðum og hvernig á þeim var tekið. Að sjálfsögðu snýst þetta í grunninn ekki um peninga.“