Ekki til nein töfralausn til að verða góð í rúminu

Mynd: Shutterstock / Shutterstock

Ekki til nein töfralausn til að verða góð í rúminu

13.02.2021 - 14:20

Höfundar

„Það er fullt hægt að gera, og svo er þetta náttúrlega bara æfing. Fæstir eru eitthvað geggjaðir í byrjun en svo verðum við betri,“ segir Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir sálfræðingur og kynlífsráðgjafi. Hún er með ýmis góð ráð um hvað er gott að hafa í huga en segir að því miður sé engin ein töfralausn til sem virki fyrir allt fólk. 

Helsta ástæða þess að pör leita til Aldísar Þorbjargar Ólafsdóttur, sálfræðings og kynlífsráðgjafa, er ólík kynlöngun fólks í sambandinu þar sem annað hefur meiri kynlöngun en hitt. Það sé þó mýta að það sé alltaf karlmaðurinn í gagnkynja samböndunum sem hefur meiri kynlöngun en konan. Pör þurfi oft að skoða hvað er raunhæft í sambandinu.

Í ljósi þessara punkta Aldísar er áhugavert að skoða niðurstöður belgískrar rannsóknar Roels og Janssens frá 2020 meðal ungra, gagnkynja para. Rannsökuð voru áhrif samskipta um kynlíf og hversu oft pör stunda kynlíf á ánægju fólks með sambandið og kynlífið. Niðurstöðurnar sýndu að það voru samskiptin sem höfðu mun meiri áhrif á ánægju para bæði með sambandið og kynlífið, frekar en hversu oft þau stunduðu kynlíf.

Umræða Aldísar styður einmitt þessar niðurstöður. Hún segir að samskipti séu lykilatriði áður en vandamálin koma upp, til dæmis um hversu oft pör ættu að sofa saman, framhjáhald og hvar línurnar liggja þar eða ef par vill opna samband sitt fyrir öðrum. Aldís segir að samskipti séu lykilatriði áður en vandamálin koma upp, til dæmis um framhjáhald og hvar línurnar liggja þar, eða ef par vill opna samband sitt fyrir öðrum.

Indíana Rós og Mikael ræða við Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur, sálfræðing og kynlífsráðgjafa, í hlaðvarpinu Klukkan sex um það sem liggur á hjarta margra: Hvernig verðum við góð í rúminu? Þau ræða líka ýmislegt fleira, til dæmis stellingar, klám, framhjáhald, mismunandi kynlöngun í samböndum og fjölkær sambönd. Þátturinn er aðgengilegur á vef UngRÚV og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Getnaðarvarnir veita kynfrelsi