
Netinnkaup aukist í faraldrinum
Sumir velja að gera matarinnkaupin á netinu og fá matinn sendan heim, vinsældir þessa fyrirkomulags jukust í heimsfaraldrinum. Fólk er líka farið að tala meira við tækin sín, oftast á ensku en mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að geta gefið nettengdum tækjum fyrirskipanir á íslensku. Aha.is hefur þróað eitt slíkt app, markmiðið er að fólk geti gert stórinnkaup heima hjá sér á stuttum tíma. „Ef við ætlum að gera okkur pönnukökur með sultu og rjóma, segjum sem svo að ég ætli að vera duglegur um helgina, þá byrja ég bara hér, ýti á takka og segi smjör, þá fæ ég smjör og set það í körfu, egg, ég þarf sex egg þau eru komin, sykur, sykur.“ Það eru enn smá hnökrar. Appið notar gervigreind og á að ná betri tökum á íslenskunni með tímanum.
Takmarkaður raddstuðningur við íslensku
Maron segir að það hafi verið áskorun að þróa svona innkaupaapp á íslensku. „Það er til raddstuðningur við íslensku í mjög takmörkuðum hluta tækja. Það er hægt að kaupa af Google og Amazon raddgreininn sjálfan en hann virkar ekkert svo vel á íslensku nema þú sért búinn að forvinna ofan í hann að ákveðnu leyti.“
Vill auka aðgengi fyrirtækja að talgreiningarbúnaði
Það tók tvö ár að þróa appið og Maron segir það hafa kostað vel yfir hundrað milljónir. Hann segir mikilvægt að auka aðgengi fyrirtækja að talgreiningarbúnaði þannig að þau fari ekki að eyða formúgu í að þróa sömu tæknina, hvert í sínu horni. „Ég held að lykilatriðið sé að fá íslenskuna inn í þessa erlendu raddgreina, síðan má vel vera að við náum að smíða þetta alveg sjálf og búum til grunnþjónustu hér, þá held ég að það sé mikilvægt að það sé opinn hugbúnaður sem er aðgengilegur öllum.“