Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útlit fyrir rigningu í dag og um helgina

12.02.2021 - 06:51
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Í dag er spáð nokkuð hvassri austan- og suðaustanátt suðvestanlands, en björtu veðri norðantil á landinu. Úrkoma verður líklega óveruleg þar til í kvöld þegar fer að rigna um landið suðaustanvert.

Veðurstofan varar við því að búast megi við snörpum vindhviðum við fjöll suðvestantil á landinu í dag og víða um land á morgun.

Hiti verður eitt til sex stig, en búist er við að vægt frost verði á Norður- og Austurlandi. Á morgun er útlit fyrir hvassa suðaustanátt með rigningu syðra, en skýjuðu og þurru fyrir norðan. Hiti tvö til átta stig.

Á sunnudag er helsta breytingin sú að viðbúið er að rigni víða um land og sennilega talsvert eða mikið á Suðausturlandi og Austfjörðum. Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víðast hvar hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV