Mikið vatn runnið til sjávar frá stofnun Stúdentaráðs

Mynd: - / RÚV

Mikið vatn runnið til sjávar frá stofnun Stúdentaráðs

12.02.2021 - 12:34

Höfundar

„Stúdentaráð hefur verið einstaklega óhrætt við að láta í sér heyra, sýna aðhald, róttækni og framsækni. Hagsmunabaráttan snýst nefnilega um að tryggja réttindi stúdenta á mjög víðtæku sviði; jafnt aðgengi að námi og þróun fjölbreyttra kennsluaðferða, en líka örugga fjármögnun Háskólans og sanngjörn kjör á vinnumarkaði,“ segir Isabel Alejandra Diaz forseti Stúdentaráðs.

RÚV sýnir þessa dagana þætti þar sem hagsmunabarátta stúdenta er rakin í tilefni af aldarafmæli Stúdentaráðs. Þar er farið yfir merka áfanga í baráttunni og hlutverk Stúdentaráðs sem róttækt hagsmunaafl í þágu stúdenta. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Stúdentaráðs 1967-1968, segir að íslenskir stúdentar hafi unnið að sínum framfaramálum án mótmæla. Á sama tíma hafi verið stúdentaóeirðir í París og víða í Evrópu. „Það er líka svolítið merkilegur þáttur í sögu þessa tímabils að þetta skildi gerast svona farsællega og friðsællega hér. Við fylgdumst síðan með og lásum hvað var að gerast í París,“ segir Björn Bjarnason.

Í þættinum er sjónum beint að baráttu Stúdentaráðs fyrir bættum lífskjörum jaðarhópa. „Stúdentabaráttan hefur skilað þó nokkru innan háskólasamfélagsins fyrir hinsegin fólk,“ segir Valgerður Valur Hirst Baldur, sem var í Stúdentaráði árin 2017-2018. Valgerður Valur var sjálft í Stúdentaráði um tíma og stóð fyrir breytingum á titlum ráðsins. „Að við myndum breyta öllum titlum innan Stúdentaráðs í kynhlutlausa titla. Þannig að formaður varð forseti og svo framvegis og það var tekið mjög vel í það,“ segir Valgerður Valur. Næsta baráttumál er aðgengi að salerni, búningaaðstöðu og rýmum, að sögn Valgerðar Vals.

Isabel Alejandra Diaz núverandi forseti Stúdentaráðs segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá stofnun ráðsins 1920 en óhætt sé að segja að samtökin hafi blómstrað og orðið að kröftugu hagsmunaafli sem barist hafi í þágu stúdenta af alúð og eljusemi, innan og utan háskólasamfélagsins. Hún segir áherslur Stúdentaráðs í dag einna helst snúa að þeim vandamálum sem kórónuveirufaraldurinn hafi í för með sér. „Stúdentaráð hefur í þeim efnum verið mjög skýrt í kröfum sínum um sanngjarnari og viðunandi kjör stúdenta hjá Menntasjóði námsmanna og réttindi til atvinnuleysisbóta til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Þykir okkur aðgerðir stjórnvalda fyrir stúdenta í gegnum kórónuveirufaraldurinn ekki hafa verið miðaðar að þeim stóra hópi sem stúdentar mynda og geta ekki talist sem haldbærar lausnir til lengri tíma.“  

„Við höfum nýlega lokið herferðinni „Eiga stúdentar ekki betra skilið?“ þar sem við vorum að vekja athygli á að stúdentar standa höllum fæti. Þeir geta ekki reitt sig á Menntasjóð námsmanna þar sem grunnframfærsla hjá sjóðnum er svo lág að stúdentar ná ekki að framfleyta sér án þess að vinna samhliða námi. Þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku stúdenta og þá staðreynd að af launum þeirra sé greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð, eins og hjá öllum öðrum vinnandi landsmönnum, þá eiga þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum,“ segir Isabel. Hún segir að ráðið hyggist halda áfram að tala fyrir því að stúdentum sé tryggt fjárhagslegt öryggi til frambúðar, þessar kröfur einskorðist ekki við faraldurinn.  

Næstu fimmtudagskvöld verður rætt við stjórnmálafólk og aðra þjóðþekkta einstaklinga sem stigu sín fyrstu skref í Stúdentaráði í þáttunum Baráttan – 100 ára saga Stúdentaráðs. Einnig verður fjallað um stúdenta í framlínunni í menningu og listum og sagt frá skemmtilegum uppákomum í áranna rás.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Össur var færður forviða forseta þings eftir mótmæli