Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Meta hvort grípa þurfi til rýmingar um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Spáð er hlýnandi veðri um helgina með talsverðri rigningu, einkum sunnan- og suðaustanlands, en einnig á Austfjörðum á sunnudaginn. Á Austfjörðum er töluverður snjór til fjalla sem mun blotna og fylgjast þarf með hættu á bæði votum snjóflóðum og skriðuföllum. Metið verður um helgina hvort grípa þurfi til rýmingar á Seyðisfirði.

Í tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér í gær segir meðal annars að vegna veðurspárinnar verði ofanflóðavöktun aukin um helgina, og fylgst með því hvernig aðstæður þróast á Seyðisfirði. Metið verði um helgina hvort grípa þurfi til rýmingar eða annarra ráðstafana. Tilkynning vegna þessa verði send út í dag, einhvern tímann á milli klukkan eitt og fjögur.

Sett hafa verið upp mælitæki til þess að fylgjast með hreyfingu jarðlaga í Neðri-Botnum. Þá eru síritandi vatnshæðarmælar í borholum og úrkomumælir nærri Nautaklauf. Þá er unnið við varnargarða á svæðinu ofan við Tækniminjasafnið og Slippinn. Þjónustumiðstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er með opið í Herðubreið á Seyðisfirði alla virka daga milli ellefu og fimm og svarar starfsfólk þar fyrirspurnum íbúa og annarra tengdum aurskriðunum.