Björgólfur hættir sem forstjóri

12.02.2021 - 14:13
björgólfur jóhannsson starfandi forstjóri samherja
 Mynd: RÚV/Kikkó
Björgólfur Jóhannsson hefur látið af starfi forstjóra Samherja sem hann hefur gegnt frá því í nóvember 2019. Hann hefur tekið við formennsku í hlítingarnefnd Samherja sem hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja.

Björgólfur tók við forstjórastarfinu þegar Þorsteinn Már Baldvinsson vék úr starfi tímabundið eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og fleiri fjölmiðla um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu og ásakanir um að refsiverð brot hefðu verið framin í starfseminni. Tilkynnt var um brotthvarf Þorsteins Más hálfum öðrum sólarhring eftir að Kveikur og Stundin greindu frá háum greiðslum Samherja til áhrifamanna í Namibíu og venslamanna þeirra. Þorsteinn Már sneri svo aftur til starfa í mars og voru forstjórarnir því tveir í nærri ár.

Í færslu á vef Samherja er greint frá því að Björgólfur láti af starfi forstjóra og honum færðar þakkir fyrir mikilvægt hlutverk hans og framlag á óvenjulegum tímum. Þar kemur jafnframt fram að hann hafi verið kjörinn formaður hlítningarnefndar.

Í morgun var tilkynnt að saksóknari í Noregi hefði fellt niður rannsókn máls gegn DNB. Málið sneri að viðskiptum DNB við Samherja og grun um peningaþvætti. Saksóknari komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að ákæra starfsmenn norska bankans. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur féllst fyrir skemmstu á að héraðssaksóknari ætti rétt á því að fá gögn frá KMPG sem tengjast endurskoðunarstörfum fyrirtæksins fyrir Samherja. Forsvarsmenn Samherja hafa kvartað til nefnda um eftirlit með lögreglu og dómstólum undan framgöngu dómara og saksóknara í því máli. Fyrr í mánuðinum kom fram að þrír menn sem stýrðu eða komu að stjórnun Samherja í Namibíu eru í hópi ríflega 20 manns sem hafa verið ákærðir þar í landi vegna Samherjamálsins.