Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áfram veginn

Mynd með færslu
 Mynd: Paunkholm

Áfram veginn

12.02.2021 - 15:26

Höfundar

Paunkholm gaf út fyrstu plötu sína, Kaflaskil, árið 2017 og þessi samnefnda plata kemur í kjölfarið. Paunkholm er listrænt einyrkjanafn Franz Gunnarssonar, sem hefur marga fjöruna sopið í íslenskum tónlistarbransa og Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Kaflaskil var mikil uppgjörsplata, listamaðurinn hafði sagt skilið við sukk og sút og fetaði þá – sem nú – beinu brautina, í bata góðum og tilbúinn að takast á við lífið. Textarnir voru velflestir litaðir af þessu og platan öll vel heppnað og sannferðugt uppgjör við „gamla“ lífið. Fyrir þá sem ekki vita er Paunkholm hliðarsjálf Franz Gunnarssonar, sem semur öll lög og texta. Það var Einar Vilberg sem tók upp, hljóðblandaði og hljómjafnaði

Franz hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi í tæp 30 ár í hljómsveitum eins og Ensími og Dr. Spock og hefur komið að fjölmörgum verkefnum í íslenskum tónlistariðnaði, veri það rekstur rokkstaða og -útvarpsstöðva, skipulagning viðburða eða sú þúsundþjalamennska sem liggur fyrir hverju sinni.

Nýr lífstíll og skarpari fókus særði í raun fram fyrstu sólóplötuna og Franz því kominn á bragðið. Þessi plata hér er nokkurs konar COVID-afurð en hlé við tónleikahald rak Franz í hljóðverið og ákvað hann að klára þessa plötu, sem var ekki endilega á upphaflegri dagskrá.

Kaflaskil bjó yfir valmennum miklum í söng en á þessari plötu ákvað Franz hins vegar að syngja allt sjálfur. Sem hann gerir með glans, þó seint verði hann talinn sérstaklega raddsterkur. Ástríða og einlægni hins skapandi aðila, eitthvað sem Franz hefur umfaðmað af meiri krafti en nokkru sinni fyrr í nýja lífinu, skín hins vegar í gegn og dekkar allar misfellur sem þar kunna að vera. Lögin sjálf eru í þessum eftirtektarverða millitakti sem ég varð var við á fyrstu plötunni. Flest þeirra líða áfram í þægilegu, endurtekningarsömu grúvi, hálfgerðar möntrur stundum. Láréttur lagasmíðastíll eiginlega (John samdi lárétt, Paul lóðrétt). Sjá t.d. „Birtir til í svartnætti“ sem gott dæmi um þetta. Titillinn segir sína sögu en mörg laganna taka á samfélagsmeinum. „Ein lota enn“ fjallar um heimilisofbeldi greinilega og textinn mjög hreinn og beinn hvað það varðar. „Heyr minn vitnisburð“ er hins vegar drífandi, nokk sérkennilegt (á góðan hátt) enda fjallar það á vissan hátt um þá sérkennilegu tíma sem nú eru í gangi, líf á tímum heimsfaraldurs. Franz stingur þannig á hinum ýmsu kýlum en hann leyfir sér líka að sigla um rólegri mið, sjá t.d. skemmtilegt upphafslagið. „Við fundum stað“ minnti mig óneitanlega smá á meistarana í Mannakorn og ég var ekki að heyra neina vitleysu víst, þar sem Franz hefur sagt að upphafsstefið sé meðvituð vísun í gítarleik Magnúsar Eiríkssonar.

Það skiptast þannig á skin og skúrir á þessari annarri plötu Paunkholm. Franz virðist nýta þennan vettvang til að hella úr hjartanu og ég hrósa honum fyrir einlægnina sem situr í hverjum tón á þessari vel heppnuðu skífu. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Paunkholm - Paunkholm