Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vongóður um frjálslegt sumar

11.02.2021 - 11:48
Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / RÚV
Til skoðunar er að herða aðgerðir á landamærunum til að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið, að því er fram kom á upplýsingafundi Almannavarna og Embættis landlæknis í morgun. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir erfitt að segja til um það nú hvernig reglurnar innanlands verði í sumar, en ef það takist að halda ástandinu góðu áfram er hann vongóður um að lífið geti verið nokkuð frjálslegt í sumar.

Engin smit greindust innanlands í gær og fyrradag. Þórólfur upplýsti á fundinum að til að tryggja áframhaldandi góðan árangur væri verið að kanna hvort hægt sé að grípa til frekari aðgerða á landamærunum, meðal annars í samstarfi við landamæraverði á Keflavíkurflugvelli. Tillögur um frekari aðgerðir verða sendar heilbrigðisráðherra á næstu dögum. 

Meðal hugmynda sem hafa komið upp er að skerpa á verkferlum og sannreyna betur upplýsingar frá ferðamönnum, til dæmis hvort þeir gefi upp rétt símanúmer og heimilisfang. Ef vafi leiki á því hvort fólk haldi sig í sóttkví er til skoðunar hvort skylda eigi það til að vera í sóttvarnahúsi. 

Sóttvarnalæknir var spurður að því á fundinum hvort mögulegt yrði að halda hátíðir í sumar. Hann sagði að það eina sem hægt væri að segja um sumarið væri að það myndi koma. Hann geti ekki sagt til um það núna hvernig reglurnar verði þá. Það þurfi að sjá hvernig gangi að bólusetja. „Ef það tekst að halda góðu ástandi og tryggja að við fáum ekki smit í gegnum landamærin að þá náttúrulega munum við reyna að hafa umhverfið og allt lífið eins frjálslegt eins og mögulegt er nú í sumar, þannig að ég er bara tiltölulega vongóður með það.“

Enginn liggur inni á Landspítala með virkt smit sem stendur en þar liggja inni ellefu með gömul smit. Enginn liggur inni á gjörgæsludeild með sjúkdóminn.