Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja atvinnuleysisbætur í fjögur ár

Sonja Ýr Þorbergsdóttir
 Mynd: BSRB - Ljósmynd
Lengja ætti tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið í að minnsta kosti fjögur ár. Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. Fjölga þyrfti opinberum störfum til að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp á vinnumarkaði, verði það ekki gert verður kostnaðurinn mun meiri til lengri tíma.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir brýnt að lengja atvinnuleysisbótatímabilið því sá hópur fari sífellt stækkandi, sem hefur verið það lengi á atvinnuleysisbótum að hann á ekki lengur rétt á þeim. Fáir möguleikar séu á vinnumarkaði og fólk í þessum hópi þurfi að leita  eftir félagslegum stuðningi frá sveitarfélögunum.

„Það vita það allir að maður dregur ekki fram lífið með þeim hætti. Þegar aðstæður eru, eins og þær eru nú, að fólk á mjög erfitt með að finna sér vinnu því atvinnuleysi er mikið, þá teljum við ekki réttmætt að lengdin á atvinnuleysisbótatímabilinu sé óbreytt, heldur að það sé lengt í fjögur ár til að byrja með eins og var gert í kjölfar bankakreppunnar.“

Sonja segir að álag á opinbera starfsmenn hafi aukist mikið í faraldrinum vegna aukinnar þarfar á opinberri þjónustu. Fjölga þyrfti störfum hjá ríki og sveitarfélögum. Þannig mætti létta álagi af þeim sem þegar eru með vinnu og skapa ný störf.

Eru ríki og sveitarfélög í stakk búin að fjölga störfum? „Ríkið getur tekið ákvörðun um hvert það vilji stefna. Sveitarfélögin eru hins vegar ekki alveg í sömu stöðu.“
Þetta kostar peninga. Eru þeir til - er hægt að gera þetta? „Við höfum verið að benda á að það á ekki að reka ríkissjóð eins og það sé um heimilisbókhald að ræða. Ríkið er í stöðu til að skuldsetja sig og ríkið er líka í stöðu til að styðja við sveitarfélögin til þess að sinna sinni þjónustu. Það á ekki að fara í sömu aðgerðir og var gert í kjölfar bankakreppunnar; það var farið allt of hratt í að greiða niður skuldir sem leiddi til þess að álagið jókst verulega á almannaþjónustuna.  Þannig að það þarf að bæta í eins og staðan er núna af því að á endanum mun þetta kosta okkur öll mun meira heldur en væri lagt í að fyrirbyggja vandann.“

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir