Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 740 enn á biðlista eftir leikskólaplássi

11.02.2021 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Barði Stefánsson - RÚV
Tæplega 740 börn sem eru orðin eins árs eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík, þar af 200 sem orðin eru 18 mánaða. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að eðlilega finnist foreldrum þetta ekki viðunandi þjónusta.

400 vilja flutning milli leikskóla

„Til viðbótar við þessi 700 börn þá eru um 400 börn sem eru að biðja um flutning leikskóla í borginni þannig þau eru í þjónustu en vilja kannski komast nær heimili sínu eða vinnustað foreldra. Það er líka verkefni sem tekur tíma að vinna úr,“ segir Helgi.

Aðalinnritunardagur í leikskóla fyrir næsta haust er um miðjan mars og þá þurfa foreldrar að vera búnir að skrá sín börn á biðlista. Helgi segir að eðlilega vilji foreldrar að þetta gangi hraðar fyrir sig, en það taki tíma að byggja húsnæði og fá starfsfólk til starfa.

„Við erum ekki ennþá komin á þann stað að vera búin að brúa bilið alfarið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu og við gerum ráð fyrir að það verði komin 1100 rými til viðbótar eftir þrjú til fjögur ár í borginni í leikskólunum.“

200 bíða í Laugardal og 90 í Árbæ

Lengst er biðin eftir leikskólaplássi í Laugardal og Háaleiti, þar bíða um 200 börn sem orðin eru eins árs. Í Árbæ og Grafarholti bíða 90 börn. Helgi segir að reynt sé að bæta helst við húsnæði þar sem biðlistar eru lengstir. „Staðan er betri en undanfarin ár, það er að saxast á þetta hjá okkur. En þau sem eru ekki í fullri þjónustu eðlilega finnst þeim þetta ekki vera ásættanleg þjónusta. Og við viljum gera betur og öll áform borgarinnar eru í þá átt.“