Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 12 milljarða lán með ríkisábyrgð vegna rekstrarvanda

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Fyrirtæki í ferðaþjónustu nýttu sér helst að taka lán með ríkisábyrgð vegna rekstrarvanda vegna COVID-19 á árinu 2020. Stuðnings- og viðbótarlán eru hluti efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna heimsfaraldursins, sem viðskiptabankar geta veitt til 31. maí næstkomandi.

Stjórnvöld sömdu við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku, Landsbankann og Sparisjóðina um framkvæmd lánanna.

Alls voru veitt lán með ríkisábyrgð að fjárhæð tæpra 12 milljarða króna á árinu að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Það er öllu minna en heimildir eru fyrir í áætlunum ríkisstjórnarinnar.

Um níu milljarða stuðningslán voru veitt en þau nýtast sérstaklega minni fyrirtækjum sem mjög hafa þurft að draga saman seglin vegna faraldursins.

Áætluð þörf fyrir ríkisábyrgðir stuðningslána var allt að 40 milljarðar. Þau lán eru hugsuð til að koma í veg fyrir frekari efnahagssamdrátt.

Ferðaþjónustufyrirtæki fengu um 61% lánanna, sem geta mest numið 40 milljónum króna, þar af tíu milljónir með fullri ríkisábyrgð.

Um 79% þeirra 2,8 milljarða viðbótar-, eða brúarlána, sem veitt voru árið 2020 runnu til ferðaþjónustufyrirtækja. 

Áætlað var að slík lán gætu numið allt að 70 milljörðum króna, með allt að 50 milljarða króna ríkisábyrgð. 

Markmiðið með því að veita slík lán er að styðja við þau fyrirtæki sem verða fyrir tímabundnu tekjufalli og lausafjárvanda vegna faraldursins.

Á fjórða þúsund fyrirækja og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins að því er segir á vef stjórnarráðsins. Rúmlega 2.500 fyrirtækjanna hafa á færri en tíu launamönnum að skipa.