Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þökkum Íslandi fyrir hugrekkið“

11.02.2021 - 20:43
Erlent · Innlent · Litáen · Evrópa · Stjórnmál
Þrjátíu ár eru í dag síðan Íslendingar viðurkenndu sjálfstæði Litáen, fyrstir þjóða. Ræðismaður Litáen á Íslandi segir þjóðina enn þakkláta öllum Íslendingum fyrir stuðninginn. Áframhaldandi samstarf sé báðum þjóðunum til heilla. 

Litáen var fyrsta þjóðin innan Sovétríkjanna sálugu til að lýsa yfir sjálfstæði í mars 1990. Þann 11. febrúar 1991 samþykkti Alþingi Íslendinga að viðurkenna sjálfstæðið, fyrst þjóða. Stjórnmálasamband var svo tekið upp hálfu ári síðar, og þá við öll Eystrasaltslöndin sem höfðu þá fengið sömu viðurkenningu.

Nýtt myndband frá Litáum búsettum á Íslandi sýnir að þjóðin er vel meðvituð um þetta.

Í tilefni þessara tímamóta færði Inga Minelgaité kjörræðismaður Litáens á Íslandi Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra blóm og þakkir í morgun. „Allir Litáar vita að Ísland var fyrst til að viðurkenna sjálfstæði okkar og þegar við hittum Íslendinga þökkum við þeim fyrir hugrekkið sem þeir sýndu.“

Inga segir Litáen hafa tekist vel að vera sjálfstæð þjóð. „Litáen er í Evrópusambandinu og er land með sterkar undirstöður. Við höldum áfram að bygjga á gildum sem standa Íslendingum líka nærri, eins og lýðræði, heiðarleika, frelsi og mannréttindum.“

Þá hafi þjóðirnar verið í margs konar samstarfi, til dæmis í loftslags- og varnarmálum. „Ég er sannfærð um að löndin tvö muni auka samstarf sitt enn frekar.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV