Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýjung í dómaframkvæmd segir lögmaður Jóns

Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson höfðu fullan sigur í landsréttarmálinu í Hæstarétti í dag. Ríkið var bæði dæmt skaðabótaskylt og til að greiða þeim bætur fyrir að gengið hafi verið fram hjá þeim við skipun í landsrétt.

Þeir Eiríkur og Jón voru í hópi fimmtán hæfustu umsækjenda um embætti Landsréttardómara sem auglýst voru fyrir fjórum árum. Sigríður Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra vék frá niðurstöðu hæfnisnefndar og þeir og tveir aðrir í fimmtán manna hópnum hlutu ekki embættin. Bæði Jón og Eiríkur hafa síðan verið skipaðir dómarar við réttinn. Þeir hafa staðið í málarekstri síðan 2018. Báðar deildir Mannréttindadómstóls Evrópu hafa fjallað um lögmæti skipunar þáverandi dómsmálaráðherra. Í byrjun desember staðfesti yfirdeildin einróma fyrri niðurstöðu dómstólsins í Landsréttarmálinu og taldi að Sigríður Andersen hefði hunsað viðvaranir og brotið lög við skipun dómara í Landsrétt, sem hafi fyrir vikið pólitíska ásýnd. 

„Okkar viðbrögð eru bara jákvæð. Við erum ánægðir með þessa niðurstöðu. Hún er í samræmi við málið eins og við lögðum upp með. Og í raun og veru kemur þetta ekki stórkostlega á óvart miðað við niðurstöðu yfirdeildarinnar og það sem á undan er gengið í þessu Landsréttarmáli öllu saman,“ segir Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður Jóns Höskuldssonar. 

En þetta er nýjung í dómaframkvæmd líka, eða hvað?

„Að vissu leyti er það það. Þarna er verið að dæma tveimur mönnum bætur vegna þess að þeir hrepptu ekki embætti. En eins og fram hefur komið í málinu öllu þá er ástæðan fyrir því að þeir eiga þennan bótarétt að ráðherra rannsakaði ekki eins og tilskilið var sérstök hæfisskilyrði þegar hún var að skipa dómarana á sínum tíma.“

Er þetta í fyrsta sinn sem bætur eru dæmdar fyrir að hafa ekki hlotið starf?

„Já, að þessu leyti til og eins og þetta er uppsett. Ég meina annar málsaðilanna fær viðurkennda bótaskyldu. Umbjóðandi minn fær bara mismuninn á launum eins og hann hefði haft ef hann hefði hlotið skipanina. Og hann var bara talinn leitt það í ljós í málarekstrinum öllum að ef að dómsmálaráðherra hefði borið sig að með réttum hætti að þá hefði hann hreppt starfið.“

Í dómi Hæstaréttar í dag er íslenska ríkið dæmt skaðabótaskylt gagnvart Eiríki og gert að greiða honum þrjár og hálfa milljón í málskostnað. 
Í máli Jóns er ríkinu gert að greiða honum átta og hálfa milljón króna í skaðabætur, eina milljón króna í miskabætur allt með dráttarvöxtum þrjú ár aftur í tímann og auk þess þrjár og hálfa milljón króna í málskostnað. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Lárus Örn Steinarsson.