Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neitaði að bera snöru nýlenduherranna

11.02.2021 - 06:56
Maori Party co-leader Rawiri Waititi poses for a photo outside New Zealand's Parliament in Wellington in October 2020. Waititi this week won a battle against wearing a tie in the Parliament, ending a longstanding dress requirement that he describes as a "colonial noose." (AP Photo/Nick Perry)
 Mynd: AP
Nýsjálenska þingmanninum Rawiri Waititi var meinað að bera frem spurningu á þinginu á þriðjudag. Þegar hann hélt áfram með spurninguna, þrátt fyrir áminningu þingforseta, var honum vísað út úr þingsal. Ástæða brottrekstursins var að hann neitar að bera það sem hann kallar hengingarsnöru nýlenduherranna um hálsinn.

Waititi er maóri og var kjörinn á þing í fyrsta sinn í október. Í stað hálsbindis ber hann taonga um hálsinn, sem er hálsmen gert úr steini, að sið maóra. Þingforsetinn Trevor Mallard sagði á þriðjudag að Waititi fengi ekki að tala nema hann væri með hálsbindi. Waititi þótti það brot á réttindum sínum að vera neyddur til þess að klæðast að vestrænum sið til þess að fá að ávarpa þingið. Á leið sinni út úr þingsalnum sagði Waititi að þetta snerist ekkert um hálsbindi, heldur um menningarlega sjálfsmynd.

Að sögn CNN fréttastofunnar bar þingforsetinn fyrir sig að sjálfum þætti honum þessi regla úrelt, en yfirgnæfandi meirihluti þingmanna hafi viljað halda henni þegar rætt var um hana undanfarna mánuði. Málið barst hins vegar út fyrir þinghúsið, og þar varð mikil umræða um nýlenduáhrif í Nýja-Sjálandi. Á þriðjudag var svo myllumerkið #no2tie á fleygiferð um netið. 

Waititi mætti aftur í þingsal í gær með sama hálstau, og fékk þá að ávarpa þingið. Hann sagði í samtali við Reuters fréttastofuna að snaran hafi verið tekin af hálsi maóra. Hann segir maóra ekki hafa notið sannmælis í eigin landi, og frumbyggjar um allan heim hafi orðið fyrir mismunun vegna fordómafullra kerfa sem setja þá í annað sæti. 

Aðspurð um málið sagði forsætisráðherrann Jacinda Ardern að hún hefði ekki sterka skoðun á því hvort það ætti að vera með hálsbindi í þinginu. Mikilvægari mál lægju fyrir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV