Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Miklar sveiflur hérlendis í verði og framboði fasteigna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Raunverð íbúða á Íslandi hefur hækkað um 40% frá árinu 2015 en eitt til 20% í á hinum Norðurlöndunum. Verð íbúða í Finnlandi hefur haldist nánast óbreytt á því tímabili. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Húsnæðismarkaðurinn hér býr sömuleiðis við meiri sveiflur hér en þar, hvort sem litið er til verðs eða fjölda nýbygginga. Verðþróunin hér á landi hefur frá árinu 2017, með undantekningum, verið keimlík því sem gerist á hinum Norðurlöndunum.

Hækkunin hér er nærri öll vegna verðhækkana fasteigna á seinni hluta árs 2016 og 2017 enda skortur á ákveðnum tegunda íbúða. Mælingar benda til að verð hafi hækkað hraðar hér en hér í löndunum í kring árið 2020, hækkunin á þriðja ársfjórðungi nam um 5% í Svíþjóð og Danmörku en 4% hér.

Á seinasta fjórðungi ársins hafa fasteignir í Svíþjóð hækkað um 9% en 3% hér, samkvæmt mælingum OECD. Enn vantar tölur frá hinum Norðurlöndunum, en í Hagsjá Landsbankans segir að vísbendingar séu uppi um meiri spennu á fasteignamarkaði nágrannalandanna en hér eftir að faraldurinn skall á.

Vaxtalækkanir og samkomutakmarkanir hækka verð

Vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands eru taldar ein helsta ástæða verðhækkana hér á landi undanfarið ár en það eigi ekki við um nágrannalöndin. Stýrivextir voru víða komnir niður í 0% áður en faraldurinn hófst, en eru 0,05% í Danmörku.

Jafnframt er álitið að samkomutakmarkanir hafi orðið til þess að fólk nýtti sparnað sinn til fasteignaviðskipta og það hafi orðið til þess að verð hækkaði.

Hér hafa um 670 íbúðir verið byggðar að meðaltali á hverja 100 þúsund íbúa frá aldamótum en 350 til 580 í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Sveiflurnar hér eru þó miklar, hafist var handa við byggingu 1.300 íbúða á hverja 100 þúsund íbúa árin 2005 til 2008 en fjöldinn fór niður í 45 árið 2011.

Í Hagsjánni segir að Ísland hafi verið í fararbroddi í uppbyggingu frá 2017 en útgefin byggingarleyfi á þriðja fjórðungi 2020 eru færri verið hefur í um áratug. Uppbygging undanfarinna ára er þó talin hafa mildað verðhækkanir á síðasta ári þegar eftirspurn eftir íbúðahúsnæði jókst.