Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fóru á veitingastað en áttu að vera í sóttkví

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Lögregla hefur undanfarna daga leitað að hópi manna sem braut reglur um sóttkví við komuna til landsins. Mennirnir fóru af landi brott í dag. Sóttvarnalæknir skilar tillögum að breytingum á landamæraaðgerðum á næstu dögum. 

Einn Bandaríkjamaður og þrír Evrópubúar sátu á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur á sunnudagskvöld. Starfsmaður heyrði þá tala sín á milli um að þeir hefðu sleppt því að fara í sóttkví og gerði lögreglunni viðvart. Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að mennirnir hafi verið farnir þegar lögregla kom á vettvang en að rakningateymið sé búið að láta lögreglu hafa upplýsingar um það hvar þeir geti hugsanlega búið. „Þeir voru farnir þegar við komum en rakningateymið er búið að láta okkur hafa upplýsingar hvar þeir geta hugsanlega búið þannig að við erum að kanna með það heimilisfang,“ segir Jóhann Karl.

Voru sendir úr landi

Lögreglan heimsótti gististaðinn sem mennirnir gáfu upp við komuna til landsins, en þeir voru ekki þar. Síðdegis í dag kom í ljós að mennirnir höfðu komið hingað á vegum fyrirtækis, sem sendi þá af landi brott þegar stjórnendur fengu veður af hátterni þeirra.

„Þetta er alvarlegt. Við erum með þessar reglur og við ætlumst til þess að það sé farið eftir þeim og í rauninni erum við að treysta fólki til að fara eftir þessum tilmælum. Ef menn eru vísvitandi að brjóta þetta verður lögreglan að taka á því,“ segir Jóhann Karl.

Hertar aðgerðir á landamærum til skoðunar

Verið er að kanna hvernig hægt sé að grípa til frekari aðgerða á landamærunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendir heilbrigðisráðherra tillögur á næstu dögum. „Það er í fyrsta lagi hægt að skerpa á ýmsum verkferlum og sannreyna upplýsingar sem ferðamenn koma með, hvort þeir gefi upp rétt símanúmer, rétt heimilisfang og aðsetur, hvar þeir ætla að vera og svo framvegis. Það er hægt að krefja fólk um neikvætt vottorð áður en þau koma eins og er gert í mjög mörgum Evrópulöndum og síðan er hægt, ef vafi leikur á því hvort fólk muni halda sóttkví, að skylda fólk til að vera í farsóttarhúsi.“

Enginn greindist með kórónuveiruna í gær, hvorki innanlands né á landamærunum. Þórólfur segir að til greina komi að skila tillögum að tilslökunum innanlands fyrr en gert hefur verið ráð fyrir. „Ég held að það verði þannig ef þetta gengur svona vel áfram.“

1.200 manns bólusett í dag

Tólf hundruð starfsmenn hjúkrunarheimila voru bólusettir með bóluefni AstraZeneca í dag. Hópurinn fær seinni sprautuna eftir þrjá mánuði. Á þriðjudaginn kom í ljós að ekkert verður af fjórða fasa rannsókn Pfizer hér á landi, og Þórólfur býst ekki við að semja við annað lyfjafyrirtæki um slíka rannsókn. „Við höfum átt einn fund með AstraZeneca. Það er nú dáldið síðan það var og þeir ætluðu að hafa síðan samband en það hefur ekkert heyrst meira frá þeim þannig að ég á ekki von á því að það muni skila miklu og ég held að það sé ekki vænlegt að vera að eyða tíma og kröftum í það.“