Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Samherji leggur fram kvörtun vegna saksóknara og dómara

10.02.2021 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samherji hefur lagt fram kvörtun vegna vinnubragða Ingibjargar Þorsteinsdóttur, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, til nefndar um dómarastörf eftir að hún féllst á að héraðssaksóknari ætti rétt á gögnum frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Þá hefur fyrirtækið sömuleiðis lagt fram kvörtun til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna framferðis Finns Þórs Vilhjálmssonar, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara.

Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í desember að KPMG yrði að afhenda embætti héraðssaksóknara upplýsingar og gögn um bókhald allra félaga og fyrirtækja innan Samherjasamstæðunnar frá árunum 2011 til ársins 2020. 

Málið tengist rannsókn héraðssaksóknara á Samherjaskjölunum svokölluðu þar sem sex fyrrverandi og núverandi starfsmenn fyrirtækisins hafa réttarstöðu sakbornings. 

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að rannsókn saksóknaraembættisins beindist meðal annars að því að upplýsa „hvaða starfsmenn eða stjórnendur einstakra félaga í Samherjasamstæðunni hafi með einum eða öðrum hætti tekið ákvörðun um og átt þátt í þeirri háttsemi sem til rannsóknar sé eða atvikum verið upplýstir og haft vitneskju um hana á hverjum tíma.“

Samherji kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar sem vísaði málinu frá á þeim forsendum að fyrirtækið ætti ekki aðild að málinu. Dómurinn gerði engu að síður athugasemdir við að engin rannsóknargögn hefðu legið frammi við fyrirtökumálsins.  Rétt hefði verið af dómaranum, Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, að krefja saksóknaraembættið um þessi gögn áður en krafan var tekin til úrskurðar.

Forsvarsmenn Samherja fara hörðum orðum um bæði saksóknarann og dómarann á vef sínum.  Segir fyrirtækið vinnubrögð þeirra „ótrúleg“ og að þau hljóti að kalla á viðbrögð frá hagsmunasamtökum bæði endurskoðenda og lögmanna. „Þá hlýtur KPMG að líta það alvarlegum augum þegar rofinn er mikilvægur trúnaður endurskoðenda og lögmanna við skjólstæðinga sína,“ segir í yfirlýsingu Samherja.

Fram kom í Stundinni í október á síðasta ári að Samherji hefði skipt um endurskoðunarfyrirtæki og væri nú á mála hjá BDO efh.

Samherji telur einnig að það hljóti að kalla á viðbrögð frá embætti ríkissaksóknara þar sem saksóknari hjá héraðssaksóknara hafi haldið því fram gegn betri vitund að sönnunargögn lægju frammi þegar krafa hans um afhendingu gagna var tekin fyrir hjá héraðsdómi.  Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hún geti ekki tjáð sig um þetta málefni á þessu stigi málsins.

Uppfært með viðbrögðum ríkissaksóknara

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV