Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Saga dularfullu ástaraugnanna

Mynd: wikimedia / wikimedia

Saga dularfullu ástaraugnanna

10.02.2021 - 13:07

Höfundar

Árið 1785 fékk ung kona dularfullt auga sent í pósti. Augað var málað á agnarsmáan striga og var sendingin frá ástsjúkum aðdáanda. Unga konan var ekki ein um að fá slíka gjöf því ástaraugun voru mikið tískufyrirbæri undir lok átjándu aldar.

Árið 1785 barst Marie Anne Fitzherbert bréf til Frakklands, frá aðdáanda sínum á Englandi, George IV, prinsinum af Wales. Bréfinu fylgdi agnarsmátt málverk af auga. Auga prinsins. Prinsinn var viti sínu fjær af ástarbríma en gekk ekki sem skyldi að sameinast hinni undurfögru Fitzherbert. 

Augu þeirra höfðu mæst ári fyrr í óperunni í London, þar sem prinsinn hafði samstundis ákveðið að þessari fegurðardís skyldi hann giftast. En Fitzherbert var kaþólsk og þar að auki ekkja, þrátt fyrir ungan aldur, og hin konunglegu bresku lög þess tíma bönnuðu öll slík áform. Það eina sem unga ekkjan gat gert í stöðunni, til að halda heiðri sínum og prinsinum frá sér, var að flýja land.

En ungi prinsinn vildi ekki gefast upp. Hann sendi henni fyrrnefnt bréf og bað hana að giftast sér í leyni og með bónorðinu sendi hann ástinni sinni augað, handmálað í agnarsmáum gylltum ramma. Augað, eitt og sér, horfði á Fitzherbert. Eitt á litlum strekktum striga, án nokkurrar tengingar við restina af líkama prinsins. Það er auðvitað ógjörningur að vita hver viðbrögð hennar voru, hvort hún mætti þarna augnaráði ástarinnar sinnar, og rifjaði upp rafmagnaðar stundir sem gátu stöðvað tímann, eða hvort hún horfði með hryllingi á þetta einstaka fljótandi auga með óljósa tilveru. En líklega hefur hún heillast af gjöfinni því hún tók leynilegu bónorði prinsins og stuttu síðar voru þau gift á laun, þann 15. desember 1785. Af því tilefni var annað auga málað, í þetta sinn auga hinnar nýbökuðu, ólöglegu, prinsessu. Auga hennar fékk samastað í gylltu nisti sem prinsinn bar á sér öllum stundum, svo hann gæti horfst í augu við ástina sína, sem mátti ekki sjást neins staðar með honum opinberlega. 

En prinsinn af Wales og Fitzherbert voru ekki einu turtildúfurnar sem skiptust á málverkum af augum því míní-portrett af augum, eða ástaraugu, voru feikivinsæl meðan heldri Breta undir lok 18. aldar. Ástaraugu eru áhugavert fyrirbæri í listasögunni því þau þekkjast ekki mikið víðar á hnettinum, svo vitað sé, og vinsældir þeirra fóru mjög hátt en stóðu mjög stutt. Augu sem viðfangsefni, oft og tíðum tákn en líka bara hluti af stærra samhengi, eru auðvitað til vítt og breitt í listasögu heimsins en þessi tilteknu agnarsmáu olíuverk af ástföngnu augnatilliti afmarkast við þetta tiltekna stutta tímabil. Flest þessara verka voru máluð með viðfang ástarbríma í huga en í sumum tilfellum voru þau gerð í minningu látinnar ástar. Öll voru þau einstök, fagurlega gerð af færum listamönnum og oftar en ekki handverksfólki því mörg verkanna voru fagurlega skreytt fílabeini, gulli, perlum eða eðalsteinum. Stundum voru augun hluti af skartgrip, brjóstnælu, hring eða nisti, en alltaf hugsuð til að vera sem næst hjarta þess sem bar gripinn.

Ástaraugun eru blanda af málverki og skartgrip, heillandi og fögur, og sú staðreynd að rétt um 1.000 slík eru varðveitt í dag hjúpar þau enn meiri ljóma. Það var í raun ekki fyrr en í byrjun þessarar aldar sem farið var að skoða þau, skrásetja og rannsaka tilgang þeirra og uppruna. Fyrir utan nokkur einkasöfn eru flest verkanna varðveitt á Listasafni Fíladelfíu í Bandaríkjunum og á Viktoríu og Alberts-safninu í London. En hvað gerði það að verkum að ástaraugun urðu svona vinsæl, á jafn skömmu tíma og raun ber vitni? Af hverju vörðu vinsældir þeirra í skamman tíma? Af hverju bara eitt auga?

Hollenski listfræðingurinn Hanneke Grootenboer, sem hefur sérhæft sig í portrettum og hinu listfræðilega augnatilliti, hefur rannsakað ástaraugun og menninguna sem umlykur þau. Áður en augun komust í tísku var vinsælt að gefa lítið sjálfsportrett svo þiggjandi gæti handfjatlað myndina, kysst hana, þrýst upp að hjartanu, og séð hana öllum stundum. Grootenboer segir augun eiga margt sameiginlegt með efnismenningu borgarastéttar 18. aldar í Bretlandi þar sem rík áhersla var lögð á að gefa hluta af sér, ekki bara með mynd heldur með áþreifanlegum hlut eins og hárlokk. Í tilfelli augnanna er verið að gefa tillitið. Sá sem þiggur ástarauga getur þannig alltaf fundið fyrir viðkomandi, og þannig verður hluturinn hálfgöldróttur í krafti sínum til að vekja tilfinningar sem eru ímyndaðar, en þó ekki alveg ímyndaðar, því tilfinningar eru jú alltaf sannar.

Samkvæmt Grootenboer snerist allt um að sjást og vera séður í Bretlandi á þessum tíma, samfélagi þar sem leikreglur milli kynjanna voru svo strangar að augnatillit var það eina sem hægt var að skiptast á. Þannig gat eitt lítið augnatillit þýtt meira en þúsund orð. Og eitt lítið tillit gat auðvitað þróast í langt og innihaldsríkt samtal, þar sem hvers kyns augngotur og blikk gátu breyst í merkingarþrungin skilaboð. Úr þessu samhengi koma máluðu ástaraugun, úr umhverfi þar sem hálflokað augnlok gat gefið til kynna hvað myndi fara fram fengi parið að hittast undir fjögur augu. Og þannig getur eitt auga sagt meira en hundrað síðna bréf. Sum gefa til kynna sorg eða gleði á meðan önnur gefa til kynna ást, löngun og þrá. Sum tillitin eru falin á bak við skráargat á meðan öðrum er drekkt í hvítum perlum, sem oftast táknuðu dauða. Sum horfa strangt fram á við og gefa til kynna að verið sé að hafa auga með hvers kyns ósæmilegri hegðun. Önnur horfa fjarrænt í myrkrið án nokkurrar vonar um svör.

Annað sem heillar við ástaraugun er einmitt þessi persónulega vídd verkanna. Þau hafa í raun enga þýðingu fyrir neinn annan en þann sem gefur og þiggur. Merking tillitsins er frekar óræð fyrir þann sem ekki þekkir sögu fólksins. Þannig að þegar fólkið hvarf og saga hlutarins með því hvarf merkingin. Og með tímanum hurfu ástaraugun. Yngsta varðveitta augað er frá 1830 en um það leyti var ljósmyndin að ryðja sér til rúms. Allt í einu þótti tilgangslaust að mála augnatillit þegar hægt var að fanga andlit, með augum og augnaráði, á filmu. Ljósmyndir þóttu sannari.

Augun ein og sér áttu þó eftir að koma aftur inn á svið listasögunnar, um 150 árum síðar, með tilkomu súrrealista. Þá voru þau tekin úr samhengi andlits og persónuleika, klippt, skorin, ljósmynduð, máluð, teiknuð og tekin á filmu. Súrrealistunum voru galdrar augnanna hugleiknir, enda dyrnar inn í sálarlífið, heimili ímyndunaraflsins, duldra tilfinninga og langana. Heimili sem var miklu sannara en það sem augað sá, líkt og Magritte fjallar um í málverki sínu Falskur spegill frá 1929. Kenndu augunum að sjá með því að loka þeim, sagði Andre Breton sem oftar en ekki sést með lokuð augu á ljósmyndum. En það er önnur saga. Marie Anne Fitzherbert og prinsinn af Wales litu ekki á augu hvort annars sem brýr á milli innri sannleika og ytri veraldar, heldur sem dyr inn í víddir hvert annars. Og þannig standa ástaraugun enn í dag, öll þau tæplega þúsund sem hafa varðveist, sem minnisvarði um augnatillit einnar manneskju til annarrar.

Halla Harðardóttir fjallaði um dularfulla ástaraugað í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Pistlar

Um Maríu og Callas

Tónlist

Rafmagnaðar raftónlistarkonur 20. aldar