Rætt var við Drífu Snædal, forseta ASÍ og Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formann BSRB, í Speglinum í gær.
„Það er ýmislegt þarna sem staðfestir það sem við höfum haldið fram áður. Til dæmis hvað það tekur mikinn toll af fólki að vera atvinnulaust og slæm staða á húsnæðismarkaði. Innflytjendur og ungt fólk að taka mesta skellinn. Svo er reyndar annað sem kemur fram í þessari könnun sem hefur ekki komið fram áður. Það er hvað fólk er að gera til að leita sér að vinnu. Hvað það er tilbúið að gera til að fá sér vinnu,“ segir Drífa. Hún segir að ýmislegt í könnuninni komi á óvart. „Þar vil ég sérstaklega nefna slæma andlega og líkamlega heilsu bæði atvinnuleitenda og kvenna á vinnumarkaði. Það er eitthvað sem varpast svo yfir í aukna örorku hjá konum.“
Stórt viðvörunarljós
„Hóparnir sem við þurfum að horfa til eru innflytjendur, atvinnulausir, konur og ungt fólk. Það er misjafnt hvernig þarf að bregðast við. En þegar kemur fram að fjórðungur launafólks eigi erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman og að fimmtungur geti ekki mætt óvæntum útgjöldum þá er alveg ljóst að það þarf að bregðast við. Að fjórðungur kvenna búi við slæma andlega heilsu. Það eru ótrúlega sláandi tölur,“ segir Sonja Ýr. Hún bendir líka á tölur um stöðu ungs fólks. Ljóst sé að minna atvinnuöryggi sé í þessum hóp. „En þegar yfir 40% segjast búa við slæma andlega heilsu þá er það líka stórt viðvörunarljós sem þarf að bregðast við.“
Hlusta má á viðtalið við Drífu og Sonju Ýr í Spilaranum hér að ofan. Einnig er hægt að lesa skýrsluna um stöðu launafólks.