Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt frá Hreimi, Svölu og Axel O

Mynd: Svala / Svala

Nýtt frá Hreimi, Svölu og Axel O

10.02.2021 - 09:45

Höfundar

Að venju er þéttur pakki í Undiröldunni þar sem Hreimur ríður á vaðið með nýjan söngul og svo fylgja í kjölfarið kántrílag frá Axel Ó, ballöður frá Svölu og Emelíönu Önnu, Rakel er með nútímalegan poppslagara og Hylur og Chernobyl Jazz Club eru í rokkaðri kantinum.

Hreimur – Gegnum tárin

Í lok síðasta árs sendi Hreimur frá sér breiðskífuna Skilaboðin mín sem var fyrsta stóra platan frá honum í þó nokkurn tíma. Lögin Skilaboðin mín, Lítið hús og Miðnætursól af skífunni hafa gert það gott í útvarpi og nú sendir Hreimur frá sér lagið Gegnum tárin.


Axel O – Sama hvað á dynur

Axel Ómarsson hefur sent frá sér slagarann Sama hvað á dynur sem hann tók upp í Stúdíó Paradís, Reykjavík og Acoustic Kitchen Studio í Dallas Texas. Að venju bíður Axel upp á sérdeilis vandað en poppað köntrí með einvalaliði hljóðfæraleikara.


Svala Björgvins – Þögnin

Söngkonan Svala Björgvinsdóttir gefur út lagið Þögnin. Lagið er eftir Gunnar Hilmarsson í hljómsveitinni Sycamore Tree og íslenskur texti er eftir Stefán Hilmarsson. Lagið er af komandi þröngskífu Svölu, Andvaka.


Emelíana Anna – If I Can Recover

Lagið If I Can Recover semur Emelíana Anna í kringum erfiðan og krefjandi tíma í lífi sínu. Lagið tileinkar hún öllum sem vilja finna von og sjá fram á betri tíma ásamt aðstandendum sem hafa þurft að deila sömu sorg eins og segir í orðsendingu frá listakonunni.


Rakel Sigurðardóttir – Our Favorite Line

Rakel Sigurðardóttir hefur sent frá sér lagið Our Favorite Line þar sem hún syngur og spilar á hljóðgervil. Henni til aðstoðar er Hafsteinn Þráinsson sem spilar á gítar, trommur og hljóðgervil.


Draumfarir - Skrifað í skýin

Draumfarir gáfu út sitt þriðja lag Skrifað í skýin síðastliðin föstudag en lag þeirra Ást við fyrstu seen þar sem þeir nutu aðstoðar Króla heyrðist töluvert í útvarpi. Lagið er samið af þeim Birgi Steini Stefánssyni og Ragnari Má Jónssyni.


Hylur – Me Myself & I

Hljómsveitin Hylur hefur sent frá sér fjögurra laga plötu sem þeir kalla 9:15. Sveitina skipa þeir Hlöðver Smári Oddsson sem syngur og spilar á gítar, Friðrik Örn Sigþórsson á bassa, Jón Glúmur Hólmgeirsson á gítar og Hinrik Þór Þórisson á trommur.


Chernobyl Jazz Club – Jazzklúbburinn

Chernobyl Jazz Club spilar rokk í þyngri kantinum. Hljómsveitin var stofnuð veturinn 2019 af Guðmundi Árnasyni gítarleikara. Hann fékk til liðs við sig Ingimund Ella bassaleikara úr Bootlegs og Dos Pilas, Sigurð Gíslason úr sömu sveitum og Hreiðar Marínósson trommara Pornopopp auk söngkonunnar Amalíu úr Black Desert Sun.