Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miklar markaðssveiflur eftir að Pfizer-samningur brást

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Gengi hlutabréfa í Icelandair lækkaði um 17 af hundraði skömmu eftir opnun markaða í morgun. Gengið styrktist nokkuð í kjölfarið en lækkunin nemur nú um 13%.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir gengi Icelandair hafa styrkst nokkuð undanfarna daga. Það megi rekja til bjartsýni vegna viðræðna við lyfjafyrirtækið Pfizer um hjarðónæmistilraun í landinu.

Þegar mörkuðum var lokað í gær var gengi Icelandair 1,8 en er nú komið niður í 1,57.  Það sé svipað og verðið var um áramót. Jón Bjarki telur að það hafi snert fólk illa að samningar við Pfizer hafi ekki gengið eftir.

Hann segir þó, að gengi sambærilegra flugfélaga og Icelandair í Evrópu hafi styrkts undanfarið vegna þess að búist sé við að glæðast fari fljótlega um ferðir á styttri leiðum innan álfunnar.

Verðmyndun ferðaþjónustufyrirtækja fylgi þróun faraldursins bæði hér á landi og erlendis. Hækkanir verði þegar þegar nýsmitum fækki þótt punktstaða sé ekki góð.

Jón Bjarki kveðst bjartsýnn á að þegar komi fram á sumar og haust muni aðstæður batna í ferðaþjónustunni. „Mig grunar að þegar þeir sem ætluðu að hagnast á bóluefnafréttunum eru búnir að selja það sem þeir vildu losa sig við komist jafnvægi á markaðinn.

Útlit er fyrir að afkoma og rekstrarskilyrði fyrirtækja í ferðaþjónustunni styrkist þegar líða tekur á árið,“ segir Jón Bjarki.

Hann minnir á að Íslendingar stefni ekki mikið hraðar inn í hjarðónæmi en aðrir og áréttar að tvo þurfi til svo ferðalögum fjölgi. „Meðan ekki léttir á faraldrinum í öðrum löndum, sér í lagi okkar helstu nágrannaþjóðum, hefði ástandið alltaf verið hindrun fyrir þá sem hingað hefðu ella ferðast.“

Hann telur að ekki verði tekið að slaka á varðandi ferðalög fyrr en líða tekur á vorið. „Verulegar tilskakanir eru boðaðar hér í maí sem er svipað og annars staðar. Þá má búast við fleiri ferðamönnum.“

Það týnist til í fjölda ferðamanna þótt uppgangurinn verði hægur að mati Jóns Bjarka og að þá taki að birta til í ferðaþjónustunni. „Okkar líklegasta sviðsmynd er það dragist jafnvel töluvert inn á seinni hluta ársins.“