Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hæstiréttur vísar frá kröfu Samherja vegna KPMG

10.02.2021 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur vísaði í gær frá kæru Samherja vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfu héraðssaksóknara um að endurskoðunarfyrirtækinu KPMG yrði að láta af hendi upplýsingar og gögn um bókhald og reikningsskil allra félaga og fyrirtækja innan Samherjasamstæðunnar frá árunum 2011 til 2020. Samherji bar bæði héraðsdómara og saksóknara þungum sökum í yfirlýsingu í dag.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að Samherja hafi brostið heimild til að kæra úrskurð Landsréttar. 

Uppfært 16:03

Dómurinn birtir bæði úrskurð Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur með öllum nöfnum sem höfðu verið fjarlægð þegar úrskurður Landsréttar birtist á vef dómstólsins í síðustu viku. Hæstiréttur hefur nú fjarlægt nöfnin af vef sínum.

Samherji birti harðorða yfirlýsingu á vef sínum í dag, daginn eftir dóm Hæstaréttar. 

Þar kom fram að fyrirtækið hefði lagt fram kvörtun vegna vinnubragða dómara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur til nefndar um dómarastörf  og til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna framferðis saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara. 

Vísaði fyrirtækið til þess að gerðar hefðu verið athugasemdir við það hjá Landsrétti að engin rannsóknargögn hefðu legið frammi við fyrirtöku málsins í héraðsdómi og að dómari hefði átt að krefja saksóknaraembættið um þessi gögn áður en krafa þess var tekin til úrskurðar. Það hefði ekki verið gert.

Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sagðist ekki ætla að tjá sig um málið. „Hér er um dómsathöfn að ræða hjá viðkomandi héraðsdómara. Hefur Samherji þegar boðað í hvaða farveg málið verður fellt,“ segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.

Í yfirlýsingu Samherja var einnig kallað eftir viðbrögðum frá embætti ríkissaksóknara sem lögbundið eftirlitshlutverk um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara. „Ég get ekki tjáð mig um þetta málefni á þessu stigi,“ sagði Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.