Efast um að aðrir lögmenn viti um tvöfalt líf hennar

Mynd: Hrefna Dögg Gunnarsdóttir / Aðsend

Efast um að aðrir lögmenn viti um tvöfalt líf hennar

10.02.2021 - 09:15

Höfundar

„Ég svaf í föðurlandi og svo vaknaði maður á morgnana, fór úr föðurlandinu og í jakkafötin og niður í dóm,“ segir Hrefna Dögg Gunnarsdóttir lögmaður sem seldi af sér spjarir og heimili og flutti í skútu sem var bundin niður í Reykjavíkurhöfn.

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir hefur farið óvenjulegar leiðir í lífinu og fetað ótroðnar slóðir. Hún er elst fjögurra systkina, fædd og uppalin í Stykkishólmi og það er sama hvert um heiminn hún ferðast og flytur, Stykkishólm kallar hún alltaf heim. „Ég held að ef þú hefur átt góðan uppvöxt þá finnirðu alltaf fyrir þeirri orku. Það skiptir ekki öllu máli hvar það er,“ segir hún. Það var mikið líf og fjör á heimilinu í æsku og systkinin stunduðu allar þær tómstundir sem í boði voru. „Það var blússandi gangur, mikið stuð, margar skíðaferðir og tjaldað út um allt.“ Hrefna Dögg ræddi við Andra Frey Viðarsson í Sunnudagssögum á Rás 2 um ást sína á norðurslóðum, lífinu sem lögmaður í skútu og hvernig eiginmaðurinn féll bókstaflega fyrir henni á skíðum á Svalbarða.

Líkt og öll systkinin hefur hún spilað körfubolta en hún ákvað að taka sér pásu frá körfunni á meðan hún kláraði almennuna í lagadeild HÍ. Boltanum driplaði hún ekki aftur en laganámið kláraði hún hins vegar. Í dag starfar hún við lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn. En áður en þangað var komið kom Hrefna víða við.

Mynd með færslu
 Mynd: Hrefna Dögg Gunnarsdóttir - Aðsend
Mikilvægast í lífinu fyrir Hrefnu er að tapa ekki hugrekkinu.

Erlend hjón buðu henni að fara hvert sem hún vildi

Aðeins nítján ára bauðst henni óvænt að ferðast til Grænlands en hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á norðurslóðum. Hún var að vinna á Narfeyrarstofu í Stykkishólmi á sumrin á meðan hún var enn í menntaskóla. Eitt kvöldið aðstoðaði hún erlend hjón sem unnu hjá sitt hvoru flugfélaginu. Hjónin sögðu Hrefnu að hún væri einstaklega suðræn í útliti og kölluðu hana Fransescu allt kvöldið. Þau vildu allt um hana vita og áður en kvöldinu lauk buðu þau henni vinnu.

Hún sagði þeim að þegar hún væri búin að mennta sig og ferðast um heiminn þá myndi hún kannski slá til. Hjónin vildu þá vita hvert Hrefna vildi helst ferðast og hún svaraði að sig langaði mikið til Grænlands. Hún þurfti ekki að endurtaka svarið, hjónin sáu til þess að draumur Hrefnu væri uppfylltur og henni var flogið þangað í þeirra boði. Það ferðalag hafði afar mótandi áhrif á hana en hjónin talaði hún ekki við eftir þetta. „Það var mjög leiðinlegt að hafa misst samband við þetta fólk því ég náði ekki að þakka þeim fyrir,“ segir hún.

Mikilvægast að tapa ekki hugrekkinu

Í nokkrar vikur fór hún um landið og kynntist landi og þjóð. „Ef ég hefði ekki verið svona ung og frökk hefði ég eflaust undirbúið mig betur,“ segir hún. „En ég má samt eiga það að ég var búin að hringja nokkur símtöl áður en ég lenti svo ég var búin að festa mér stað til að sofa á fyrstu næturnar. Ég gerði það í skiptum fyrir barnapössun,“ segir hún.

Mikilvægast segir hún að sé að tapa ekki hugrekkinu. „Það er svo auðvelt þegar maður er í umhverfi sem er gott við mann, að gleyma því að vera hugrakkur og gleyma að sækja það sem getur gefið manni mikið þó það sé kannski erfitt í smá tíma.“ Þegar maður hins vegar minni sig á hugrekkið geti lífið verið nokkuð ævintýralegt. „Það er munur á hugrekki og fífldirfsku en ég held að hugrekkið sé góð mantra.“

Seldi allt og flutti í skútu

Laganámið hentaði Hrefnu vel og fékk hún fljótlega vinnu á lögmannsstofu. Hún fann fljótt að þægindin voru orðin meiri en hún kærði sig um svo hún ákvað að brjóta rútínulífið upp og flytja úr íbúðinni sinni og í skútu í Reykjavíkurhöfn. Áður en hún keypti sér skútuna og flutti í hana seldi hún flest af því sem hún átti því það er lítið pláss í skútunni. Þar kom hún sér svo fyrir og bjó í tvö ár.

„Ég veit ekki hvort margir lögmenn hafi vitað af mínu tvöfalda lífi á þessum tíma,“ segir hún sposk. Þegar aðrir fóru heim úr vinnu og elduðu kvöldmat og horfðu á sjónvarpið var Hrefna að brasast í spottum til að reyna að verja sig gegn veðri og vindum í Reykjavíkurhöfn. „Ég svaf í föðurlandi og svo vaknaði maður á morgnana, fór úr föðurlandinu og í jakkafötin og niður í dóm,“ rifjar hún upp.

„Þetta var dásamlegt líf“

Hún naut þess þegar heim var komið eftir annasaman dag að neyðast til að hugsa um annað en vinnuna. „Ég elska lögmennskuna, hún er mjög ávanabindandi sport en þú þurftir að kúpla þig út þegar þú komst heim.“

Hún þurfti eftir vinnudaginn að kanna vatnsstöðuna, hvernig spottarnir væru og hvað væri að fara að gerast um nóttina eða næsta dag þegar hún væri ekki heima til að passa upp á heimilið. En þegar veðrið var gott gat hún legið, hlustað á fuglana og horft beint upp í himininn. „Þetta var dásamlegt líf,“ segir hún. „Sérstaklega yfir sumarmánuðina er þetta ótrúlegt.“ Hún segir ekki útilokað að hún muni aftur búa í skútu en hún myndi ekki endurtaka leikinn á sama stað. „Ég held ég myndi finna mér aðeins skjólbetri stað en Reykjavíkurhöfn,“ segir hún.

„Hamingjan er hér“ á Svalbarða

Þegar Sólveig Pétursdóttir, vinkona Hrefnu, átti þrítugsafmæli vorið 2015 ákváðu vinkonurnar að halda upp á áfangann með því að ferðast saman til Svalbarða. Þær ferðuðust um á vélsleða, skoðuðu jökla, firði og haf og brugðu sér á skíði. Hrefna kolféll fyrir staðnum og lét vita af því að hún hefði fundið sinn stað í veröldinni. „Við vorum með svona smá venju á Rétti þar sem ég var að vinna, að skrifa póstkort heim á skrifstofuna ef við vorum að þvælast. Ég skrifaði póstkort frá Svalbarða og þar stóð bara heimilisfangið hjá Rétti og svo „Hamingjan er hér,“ segir Hrefna.

Mynd með færslu
 Mynd: Hrefna Dögg Gunnarsdóttir - Aðsend
Hrefna ber virðingu fyrir ísbjörnunum og fylgdist með þeim úr öruggri fjarlægð á Svalbarða.

Ævintýralíf og öræfakyrrð

Í Longyearbyen þar sem Hrefna bjó eru um 2300 íbúar skráðir, flestir Norðmenn en einnig fólk af allt að því fimmtíu þjóðernum, „aðallega því Svalbarði er ekki í Schengen. Þú þarft ekki að vera með dvalarleyfi innan Evrópu til að koma, búa og vinna á Svalbarða.“ Þangað koma margir gestir ár hvert og bærinn er nokkuð líflegur á sumrin. „Það er bíó og matvöruverslun og apótek og þetta helsta sem þú finnur í bæ, og kannski meira en þú myndir finna í bæ af þessari stærðargráðu hér,“ segir hún.

Það eru tvö önnur þorp á Svalbarða og á milli þeirra er farið á bát eða vélsleða. „Það er mjög auðvelt þegar þú ert kominn til að upplifa ævintýralíf og öræfakyrrð að vera sjálfum þér nægur og standa á eigin fótum.“

Skíðaði á mann sem féll fyrir henni

Hrefna gat unnið á lögmannsstofunni í fjarvinnu á meðan hún dvaldi á Svalbarða en hún tók líka að sér önnur verkefni þar ytra. Hún var meðal annars ráðin í áhöfn á gömlu selveiðiskipi og sigldi einnig með ferðamönnum í skíðaferðir. Í einni skíðaferðinni skíðaði hún á mann sem segja má að sé enn undir skíðum hennar.

„Ég lýsi því þannig að ég hafi skíðað á mann og hann hafi fallið svona kylliflatur fyrir mér,“ segir Hrefna um eiginmann sinn Wes Farnsworth. Hann er bandarískur jarðfræðingur frá Vermont og hafa þau hjónin búið ýmist á Íslandi, Svalbarða og í Kaupmannahöfn.

Wes er með nýdoktorsstöðu við jarðfræðideild Háskóla Íslands en Hrefna starfar fyrir lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn. Síðan brast á með heimsfaraldri hefur Hrefna dvalið að mestu hér heima með Wes en fram að því höfðu þau verið í fjarbúð en flogið á milli. Það stendur til að þau flytji saman á annan hvorn staðinn en í bili hentar fyrirkomulagið þeim ágætlega.

Ber virðingu fyrir ísbjörnunum

Það er ýmislegt sem Hrefna saknar frá Svalbarða og hún hugsar oft þangað. Náttúrufegurðin var mikil en hún gat líka verið hættuleg og snjóflóðahætta til dæmis víða mikil. Ísbirni sá hún stundum á vappi en aldrei öðruvísi en í passlegri fjarlægð. „Þeir hvítabirnir sem eru þarna, maður bara ber virðingu fyrir þeim. Þetta er þeirra land og maður þarf að haga sínum ferðum og háttum eftir því,“ segir hún.

Tungl og norðurljós allan sólarhringinn

Náttúran gat líka verið stórkostleg. Norðurljósa- og tunglskins er stundum hægt að njóta sleitulaust dögum saman. „Yfir dimmasta tímann á Svalbarða, sem er mjög dimmur, er engin birta. Þá er hægt að sjá tunglið og norðurljósin hvenær sem er sólarhrings. Það er dálítið merkileg uppgötvun,“ segir Hrefna. „Maður heldur þegar maður kemur héðan að maður sé sjóaður í skammdegismyrkri og öfgafullu veðurfari en á Svalbarða er annars konar myrkur. Þú munt aldrei heyra mig kvarta undan skammdegi hér á landi aftur.“

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Hrefnu Dögg Gunnarsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.