Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Andrés Ingi vill á lista í Reykjavík

Mynd með færslu
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna. Mynd: RÚV
Andrés Ingi Jónsson, sem í dag gekk til liðs við þingflokk Pírata,  hyggst gefa kost á sér í prófkjöri Pírata, sem haldið verður í næsta mánuði, á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

„Mér fannst ég þurfa að lenda einhversstaðar,“ svaraði Andrés Ingi spurður um hvers vegna hann hefði gengið til liðs við Pírata eftir að hafa verið þingmaður utan flokka í rúmt ár. „Það hefur verið ágætur tími, þetta ár utan þingflokka, það er meiri slagkraftur í því að vera með fleira fólki og hugmyndafræðilega höfum við Píratar oft náð vel saman.“

Þegar Andrés Ingi sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í nóvember árið 2019 sagðist hann ekki ætla að ganga til liðs við þingflokk annars stjórnmálaflokks. Hann hefði verið kjörinn á þing af kjósendum VG og þau atkvæði ætti ekki að færa á milli flokka. Spurður hvað hefði breyst segir Andrés Ingi að það væri strembið að vera utan þingflokka. Ákvörðunin hefði verið praktísk og auðveldara væri að koma málum á framfæri í samstarfi við fleira fólk.  „Það eru málin sem ég var kosinn á þing til að standa vörð um.“

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir