Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Útgöngubann framlengt í Hollandi

09.02.2021 - 01:22
epa08997091 Outgoing Minister Ferd Grapperhaus (Justice and Security) gives a statement after the consultation of the Ministerial Committee COVID-19 (MCC-19) about the extension of the curfew and tackling the corona virus, in The Hague, the Netherlands, 08 February 2021.  EPA-EFE/ROBIN UTRECHT
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Hollensk stjórnvöld framlengdu í dag reglur um útgöngubann, sem áttu að falla úr gildi á morgun. Útgöngubann frá níu að kvöldi til hálf fimm að morgni hefur verið í gildi í Hollandi um rúmlega tveggja vikna skeið. Í stað þess að láta það renna út, eins og til stóð, ákvað ríkisstjórnin að halda reglunum óbreyttum til 3. mars hið minnsta.

Ferdinand Grapperhaus, dómsmálaráðherra Hollands, segir heilbrigðisyfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að nýgengi smita væri enn hættulega mikið og ítrekað viðvaranir sínar vegna breska afbrigðisins, sem sé tekið að breiðast út um landið. Því hafi verið ákveðið að framlengja útgöngubannið.

Hörð mótmæli brutust út í nokkrum helstu borgum Hollands fyrstu kvöldin eftir að útgöngubannið tók gildi. Mótmælin þróuðust víða út í óeirðir, sem lögregluyfirvöld hafa sagt hinar verstu sem orðið hafa í Hollandi um 40 ára skeið.