Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Telur markaðinn spenntan yfir mögulegum Pfizer-samningi

09.02.2021 - 12:58
Mynd með færslu
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.  Mynd: RÚV
Hlutabréf í Icelandair Group hækkuðu um tæpt prósent í gær, 444 fjárfestu í bréfum í félaginu. Sama dag var tilkynnt um að félagið hefði tapað 51 milljarði í fyrra. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur að viðskiptin tengist hugsanlegum samningi við Pfizer um fjöldabólusetningu í rannsóknarskyni. 

 

Tugmilljónatap og bréfin hækka

Icelandair Group tapaði fimmtíu og einum milljarði króna á síðasta ári. Ársfjórðungsuppgjör félagsins var birt í gær. Farþegafjöldinn hrundi og sætaframboð sömuleiðis. Óvissan er mikil.  Í tilkynningu sem félagið sendi

Kauphöll Íslands segir að þróun faraldursins og dreifing bóluefna á næstu mánuðum muni skipta sköpum varðandi framhaldið. Félagið geri ráð fyrir því að flug aukist á vormánuðum, þá verða Boeing 737 Max vélarnar líka teknar aftur í notkun. 

Meðbyr með flugfélögum á styttri leiðum

Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hefur tvöfaldast frá í nóvember. Hlutabréf í Icelandair hækkuðu um 0.82% í gær, 444 fjárfestu í bréfum fyrir samtals 544 milljónir króna. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka tengir þetta almennri þróun en líka spenningi fyrir hugsanlegum rannsóknarsamningi við Pfizer. „Það hefur almennt verið heldur meðbyr með flugfélögum í Evrópu, sérstaklega þeim sem eru á styttri leiðum eins og Icelandair er að hluta. Líklega er nú helsta skýringin samt viðbrögð við orðrómi um að það kunni að vera yfirvofandi fréttir af mögulegri rannsókn Pfizer á hjarðónæmi hér sem gæti haft jákvæð áhrif á flugsamgöngur til og frá landinu,“ segir Jón Bjarki Bentsson. 

Hann segir að margir hafi keypt í Icelandair í gær, en upphæðirnar hafi verið frekar lágar. Verðhreyfingin hafi ekki verið mikil, þrátt fyrir mikla veltu og ekki mikil lækkun í dag. „Þannig að markaðurinn er nú svona yfirvegaður þrátt fyrir lífleg viðskipti með félagið.“
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV