Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Ólseigastur allra pólitískra dráttarklára“

09.02.2021 - 18:05
Mynd: EPA-EFE / Ritzau Scanpix
Ólga er í stjórnmálum á Grænlandi, í síðustu viku fækkaði stjórnarflokkunum úr þremur í tvo er Demakratiit hætti stjórnarþátttöku. Kim Kielsen, formaður Landsstjórnarinnar, er því nú í forystu minnihlutastjórnar. Aðeins 11 af 31 þingmanni styður nú stjórnina. Kim Kielsen tók við stjórnarforystu 2014 er hann varð formaður Jafnaðarmannaflokksins Siumut, sem lengst af hefur farið með stjórnarforystu á Grænlandi.

Tapaði formennsku en situr áfram

Kielsen tapaði í formannskjöri á landsþingi Siumut í lok nóvember og Erik Jensen tók við. Kielsen er engu að síður áfram formaður Landsstjórnarinnar. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, varar við að afskrifa Kielsen:

„Hann er náttúrulega ólseigastur allra grænlenskra pólitískra dráttarklára sem ég man eftir."

 

Össur var formaður nefndar sem gerði skýrsluna „Samstarf Íslands og Grænlands á nýjum Norðurslóðum“ að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Skýrslunni var skilað í janúar.

Ekki fordæmalaus staða

Össur segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slík staða komi upp í grænlenskum stjórnmálum og sé ekki fordæmalaus, 1987 hafi verið sótt að Jonathan Motzfeldt þáverandi forsætisráðherra og Lars Emil Johansen hafi verið kjörinn formaður Siumut. Motzfeldt hafi hins vegar setið áfram í fjögur ár.

Veruleg óánægja með Kielsen

Töluverð óánægja hafði verið innan Siumut með Kim Kielsen, margar ákvarðanir hans höfðu vakið óánægju og mótmælafundir voru haldnir í höfuðstaðnum Nuuk síðasta haust. Sex af tíu þingmönnum Siumut lýstu vantrausti á Kielsen og kröfðust afsagnar hans fyrir tveimur árum. Þingmennirnir sex og einn ráðherra Siumut sögðu í yfirlýsingu að Kielsen hefði vanvirt þingið og kjósendur og tekið ýmsar ákvarðanir þvert á stefnu flokksins.

Stóð af sér vantrauststillögu

Kielsen stóð naumlega af sér vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í október í fyrra. Það kom því ekki á óvart að Kielsen skyldi fá mótframboð þegar gengið var til kosninga um formannsembættið á landsþingi Siumut í nóvember. Erik Jensen, 45 ára gamall hagfræðingur, og Vivian Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins, buðu sig fram gegn Kielsen.

Ótrúlega lífseigur stjórnmálamaður

Jensen var kjörinn formaður, Vivian Motzfeldt varaformaður og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen varaformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins. Össur Skarphéðinsson segir að þó að Kielsen hafi misst formannsembættið sé hann ótrúlega lífseigur stjórnmálamaður. Hann hafi misst fjölmarga ráðherra út úr ríkisstjórnum af ýmsum ástæðum, hafi misst flokka úr stjórnum, hann hafi leitt minnihlutastjórnir. Nú sé hann hins vegar í kröppum sjó.

Erik Jensen vill taka við stjórnarforystu

Erik Jensen sagði þegar hann tók við formennsku í Siumut að það væri þingsins að ákveða hver væri formaður landsstjórnarinnar, en hann hefur ekki dulið áhuga sinn á að taka við stjórnarforystu. Össur segir Jensen mjög fylginn sér, hann sé gamall íþróttamaður og þjálfari, margfaldur Grænlandsmeistari í handbolta og sé mjög vaskur. Hann hafi ekki verið lengi í stjórnmálum en það hafi komið skýrt fram þegar hann kom á þing að þarna myndi skerast í odda.

Tíðinda má vænta er þing kemur saman í næstu viku

Össur segir að flokkarnir tveir sem eftir eru í ríkisstjórninni eigi mjög undir högg að sækja. Margir búist við að efnt verði til nýrra kosninga en hann sé ekki alveg viss um að svo fari. Stjórnskipan Grænlands geri það að verkum að ekki sé auðvelt að boða til kosninga, það gerist ef vantraust sé samþykkt eða að innan við hálft ár sé eftir af kjörtímabilinu. Aðeins einn flokkur hafi sagt skýrt að hann vilji nýjar kosningar, Demokratiit, sem hætti nýlega ríkisstjórnarþátttöku.

Inuit Ataqatigiit liggur ekki á kosningum

Össur segir að hinn stóri flokkurinn á Grænland, Inuit Ataqatigiit eða IA, hafi bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu. Flokkurinn líkist Vinstri-grænum á Íslandi, hafi verið róttækari en hafi nú fundið sér stöðu sem „miðaldra, hægfara sósíaldemókratískur flokkur“. Þeim liggi ekkert á, honum finnist líklegt að þau vilji bíða átekta, þjóðin vilji mögulega ekki tvennar kosningar, sveitarstjórnakosningar verði í apríl.

Kielsen telur sig líklega enn ekki hafa sungið sitt síðasta.

Össur segir líklegt að Kim Kielsen telji sig mögulega geta setið fram á haust. Hann muni freista þess að leiða minnihlutastjórn út veturinn og fram á haust. Allt geti gerst ef honum takist að sitja svo lengi og fá fjárlög samþykkt.