Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ofbeldi af hálfu nemenda lítið verið rætt hér á landi

09.02.2021 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Kennarasamband Íslands, KÍ, fær í hverri viku símtöl frá kennurum sem telja sig verða fyrir ofbeldi af hálfu nemenda. Sambandið hvetur skólastjórnendur til þess að gera viðbragðsáætlun vegna ofbeldis og tilkynna öll atvik. Það sýni sig að opin umræða fækki ofbeldismálum. 

 

Mikilvægt að kennarar tilkynni atvik

Ef fólk slasast við vinnu sína á að tilkynna það til vinnueftirlitsins. Þetta á líka við um ofbeldi sem kennarar verða fyrir innan skóla, af hálfu nemenda. Fréttastofa fjallaði í gær um kennara sem varð 75% öryrki og glímdi við andleg veikindi eftir árás nemanda. Síðastliðn fimm ár hafa vinnueftirlitinu borist 82 tilkynningar um ofbeldi gegn kennurum en Kennarasambandið telur þau mun fleiri. Sigrún Birna Björnsdóttir, sérfræðingur Kennarasambandsins í vinnuumhverfismálum segir mikilvægt að skrá öll ofbeldisatvik. 
„Það er þannig að það hringir kennari líklega einu sinni í viku að meðaltali og segir okkur frá einhverju atviki eða atvikum og þá er mikilvægt að atvikaskráning í skólanum sé mikil, góð og virk. Ef atvik er skráð hefur kennarinn eitthvað að vísa í, því ef hann kemst að því vikum eða mánuðum seinna að hann er lemstraður á sál eða líkama eftir svona atvik þá þarf þetta að vera skráð.“Þá sé brýnt að kennarinn sæki sér áverkavottorð á heilsugæslu eða bráðamóttöku. 

Kennarar fari þetta á hnúunum

Sigrún Birna segir ofbeldi nemenda gagnvart kennurum vera vaxandi vanda á Norðurlöndunum en þetta hafi lítið verið til umræðu hér. „Þetta er ábyggilega svolítið falið hér, við erum aðeins öðruvísi og förum svolítið á hnúunum.“

Vinnuumhverfisnefnd Kennarasambandsins vann í fyrra leiðbeiningar um hvernig skólar geta skráð atvik og brugðist við hótunum og ofbeldi. Sigrún vonar að skólarnir ráðist í þá vinnu. Það sé mikilvægt að ræða þessi mál opinskátt innan skólasamfélagsins við starfsmenn, foreldra og börn. Það þurfi að skilgreina ofbeldi, ræða viðbrögð og hvar mörkin liggja enda líti fólk það ólíkum augum. „Hvað eru pústrar? Hvað er ofbeldi? Við þurfum sjálf aðeins að meta það og rannsóknir hafa sýnt að um leið og við förum að ræða hlutina þá fækkar ofbeldisatvikum.“

Sniðmát KÍ fyrir atvikaskráningu, viðbragðsáætlun og áhættumat eru aðgengileg á vef  hafa verið send öllum skólastjórum í grunnskólum, til stendur að senda þau líka á trúnaðarmenn. Framhaldið er í höndum hvers skóla .

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV