Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Malbik illa farið þrátt fyrir minni umferð

09.02.2021 - 09:31
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Þrátt fyrir að umferð á höfuðborgarsvæðinu hafi dregist saman um rúm tíu prósent frá árinu áður en malbik illa farið. Holur og djúp hjólför eru víða á Vesturlandsvegi. Forstjóri Vegagerðarinnar segir skýringa að leita í miklum niðurskurði á árunum eftir hrun sem hafi bitnað á viðhaldi vega.

Allir þeir sem á annað borð hættu sér út úr húsi í mars og apríl í fyrra tóku eftir að umferðin var mun minni en vant er. Vegagerðin mælir umferðina og kemur í ljós að hún dróst saman í öllum mánuðum í fyrra samanborið við mánuðina árið áður ef undanskilinn er júnímánuður en þá jókst umferðin milli ára. Mestur samdráttur var í apríl. Akstur á höfuðborgarsvæðinu var þá 28% minni en í apríl 2019. Í heildina dróst umferð saman um 10,2% allt árið 2020 miðað við 2019.

Þrátt fyrir þennan umferðarsamdrátt hafa vegir á höfuðborgarsvæðinu látið verulega á sjá. Djúp hjólför hafa myndast sums staðar, til að mynda á Vesturlandsvegi. Þá eru víða holur og skallablettir í malbikinu og ójöfnur þar sem misgamlir malbikskaflar mætast. 

Hvernig getur staðið á þessu?

„Ja, við erum að slást við skuld í viðhaldi. Það er alveg klárt að á árunum eftir hrun þá var mikill niðurskurður á framlögum til viðhalds. Það myndaðist gríðarleg skuld sem við erum að vinna á,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Það fjármagn sem þið eruð að fá núna, dugir það ekki til þó að það hafi verið aukið?

„Það dugar ekki til þess að ná upp í þessa skuld að öllu leyti. Við höfum sagt að við þurfum 12-14 milljarða. Við erum með 12 milljarða þannig að við erum nokkurn veginn þar sem við teljum að við þurfum að vera. En það tekur mörg ár að ná að fylla upp í öllum götin á því sem glataðist þegar verst lét,“ segir Bergþóra.