Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Foreldrar geta ekki leyst út lyf fyrir fötluð börn

Foreldrar þroskahamlaðra, sem eru eldri en 18 ára og ófær um að veita umboð, geta ekki leyst út lyfseðla fyrir þeirra hönd í apótekum þegar á þarf að halda heldur þurfa að fá lyfin heimsend. Vandinn kom upp eftir reglugerðarbreytingu sem tók gildi fyrir tæpu ári.

Guðmundur Örn Jónsson, faðir tvítugrar stúlku sem er flogaveik og með þroskaskerðingu, segir málið alvarlegt þar sem margir þurfi að fá lyf strax og þoli ekki nokkurra daga bið eftir heimsendingu. Skriflegt umboð sé forsenda afhendingar í apóteki.

„Og það er bara ekki hægt. Hún er hvorki læs né skrifandi og getur þess vegna ekki veitt skriflegt umboð. Og hún hefur ekki aðgang að Heilsuveru þannig að hún getur heldur ekki veitt rafrænt umboð,“ segir Guðmundur. „Í mínum huga er það bara augljóst að þegar menn settu þessar reglur um umboð þá bara gleymdu þeir fötluðum. Það var ekkert annað,“ bætir hann við. 

Fyrir skömmu fékk dóttir Guðmundar sýkingu í góm og þurfti sýklalyf strax á föstudegi. Eins og kerfið er gat hún ekki fengið lyfin nema heimsend eftir helgi, 2-3 dögum síðar.

„Mér finnst bara eins og að ég sé staddur í einhverju grínatriði. Þetta er algjörlega manngert vandamál og það eru núna sérfræðingar hjá hinu opinbera sem eru búnir að vera í marga mánuði að reyna að leysa úr þessu vandamáli sem að þeir bjuggu til sjálfir. Fyrir utan það að fá ekki svör frá Lyfjastofnun og Landlækni fyrr en eftir tæpa tvo mánuði finnst mér bara ekki í lagi,“ segir Guðmundur og að allir foreldrar fatlaðra og þroskaheftra barna sem eru eldri en 18 ára séu í þessum sporum. 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV