Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Blaut tuska í andlit þolenda launaþjófnaðar

Silfrið.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir frumvarp félagsmálaráðherra til starfskjaralaga bjóða upp á „ríkulegt hlaðborð nýstárlega undankomuleiða fyrir brotlega atvinnurekendur." Mynd: RÚV
Stéttarfélagið Efling gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra, til starfskjaralaga, og kallar það „blauta tusku í andlit þolenda launaþjófnaðar.“ Formaður Eflingar segir frumvarpið ennfremur bjóða upp á „ríkulegt hlaðborð undankomuleiða fyrir brotlega atvinnurekendur.“

Í tilkynningu sem fylgir athugasemdum Eflingar við frumvarpið er það sagt fela í sér gríðarlega flókið málsmeðferðarferli „þar sem í hverju skrefi hallar á brotaþola,“ sem þurfi sjálfir að sanna launaþjófnaðinn og séu svo skikkaðir til að taka þátt í niðurlægjandi samningaviðræðum við atvinnurekendur um endurgreiðslu hinna stolnu launa. Þessar viðræður eigi að fara fram í svonefndri samráðsnefnd, þar sem atvinnurekendur fái sjálfdæmi í eigin sök.

Enn fleiri undankomuleiðir fyrir launaþjófa og engin refsing

Fullyrt er að frumvarpið gefi launaþjófunum „enn ríkari undankomuleiðir en í núverandi launakröfuferli stéttarfélaganna,“ þvert á yfirlýst markmið með lagasetningunni.

Þá séu í frumvarpinu lagðar afar litlar skyldur á Vinnumálastofnun um rannsókn á málum af þessu tagi. Þess í stað sé öll ábyrgð og sönnunarbyrði lögð á launafólkið sem brotið er á.

Efling bendir á að í frumvarpinu sé heldur enga bótareglu eða févíti að finna, sem verkalýðshreyfingin hafi þó kallað eftir. Þess í stað sé boðið upp á fyrrnefnda samráðsnefnd, þar sem hinn brotlegi atvinnurekandi fái sjálfdæmi um það hvort hann endurgreiði hin stolnu laun.

Ævintýralegir ranghalar vanvirðingar og niðurlægingar

 Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að „[Þ]eir ranghalar af vanvirðingu og niðurlægingu sem þolendur launaþjófnaðar yrðu dregnir inn í með lögfestingu þessa frumvarps [séu] sannarlega ævintýralegir, svo ekki sé minnst á ríkulegt hlaðborð undankomuleiða fyrir brotlega atvinnurekendur.“ 

Í frumvarpinu hafi hugmyndaflug ráðherrans „fengið lausan tauminn án þess að raunveruleiki verka- og láglaunafólks hafi þvælst fyrir á nokkru stigi.“