Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja fella niður réttarhöld yfir Trump

08.02.2021 - 17:40
epa07968439 US President Donald J. Trump speaks to reporters before departing the White House en route to New York, Washington, DC, USA, 02 November 2019.  EPA-EFE/ERIN SCOTT / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris POOL
Verjendur Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í réttarhöldum öldungadeildarinnar yfir honum hvetja þingmenn í deildinni til að fella þau niður. Ástæðan sé sú að þau samræmist ekki stjórnarskrá landsins.

Meirihluti þingmanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í síðasta mánuði að ákæra Trump fyrir að hvetja til uppreisnar þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í Washington sem réðust skömmu síðar á þinghúsið. Réttarhöldin í öldungadeildinni hefjast á morgun.

Trump hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að bera vitni, þar sem þau samræmist ekki bandarísku stjórnarskránni. Verjendur forsetans fyrrverandi lögðu í dag fram 78 blaðsíðna greinargerð þar sem sú skoðun er rökstudd að réttarhöldin standist ekki skoðun. Því sé farsælast fyrir alla að fella þau niður.

Verjendurnir segja að málatilbúnaðurinn allur hafi einkennst af löngun Demókrata til að setja á svið pólitískt leikrit. Þeir séu með því að leika sér að eldi; þau geti skaðað lýðræðið og þau réttindi sem séu landsmönnum svo dýrmæt. 

Nánast óhugsandi er talið að Trump verði sakfelldur fyrir að hafa hvatt til uppreisnar. Til þess þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna í öldungadeildinni að greiða sakfellingu atkvæði. Mikill meirihluti Repúblikana í deildinni hefur lýst sig sammála því að réttarhöldin samræmist ekki stjórnarskránni.