Paunkholm - Paunkholm

Mynd: Paunkholm / Paunkholm

Paunkholm - Paunkholm

08.02.2021 - 14:00

Höfundar

Önnur sólóplata Franz Gunnarssonar sem hann vinnur undir hliðarsjálfinu Paunkholm hefur litið dagsins ljós. Platan er samnefnd listamanninum og hefur verið í vinnslu allt frá því COVID-19 gerði strandhögg hérlendis og hrakti margt tónlistarfólk inn í hljóðver.

Það var ekki á dagskrá hjá Franz Gunnarssyni á þessum tímapunkti að gera plötu en með aflýstu tónleikahaldi var fátt annað í stöðunni fyrir Paunkholm en að nýta tímann í stúdíói með það að markmiði að hafa plötu tilbúna fyrir árslok 2020. Listamaðurinn var með hráar hugmyndir af lögum á teikniborðinu, og byrjaði að semja Paunkholm í sóttkví. Lög og textar urðu til og platan var unnin í skorpum.

Paunkholm er hliðarsjálf Franz Gunnarssonar, sem semur öll lög og texta. Franz hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi í tæp 30 ár í hljómsveitum eins og Ensími og Dr.Spock, ásamt því að leika með mörgu af okkar besta tónlistarfólki í fjölbreyttum verkefnum

Aðdragandi Paunkholm var býsna langur að sögn listamannsins en hann hefur á fjöldamörgum árum í tónlistarbransanum verið duglegur að semja lög og vinna með hugmyndir sem ekki hafa samræmst stefnum þeirra sveita sem hann er í. Það hefur leitt til þess að sú tónlist hefur oftast nær endað ofan í skúffu. Eftir mikinn lífsstíls-viðsnúning listamannsins og tiltekt í tilverunni, ákvað hann að hreinsa til í þessari skúffu og koma einhverju af því efni sem safnast hefur saman út í kosmósinn.

Frumburður Paunkholm, Kaflaskil, var gefinn út á vínyl árið 2017 og skartar nokkrum af bestu söngröddum landsins ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara. Platan fékk fínar viðtökur og góða dóma. Síðla sumars 2019 kom síðan út smáskífan Hjartafleygur þar sem Paunkholm söng sjálfur. Upp frá því ákvað hann að syngja öll lög á næstu plötu.

Að sögn Paunkholms er platan er gefin út af áhuga fyrir að skapa músík, fá útrás fyrir sköpunarkraftinn og vonandi veita öðrum einhvers konar hughrif. Þó tónlistin sé poppuð þá eru textarnir engar tyggjókúluklessur. Það er undirliggjandi alvara í flestum þeirra, í bland við léttara hjal.

Plata Paunkholms, Paunkholm, er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð ásamt kynningum Franz eftir 10-fréttir í kvöld og er aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Paunkholm
Paunkholm - Paunkholm