Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Messað að nýju í kirkjum eftir langa bið

Mynd með færslu
Sveinn Valgeirsson. Mynd:
Sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni segir það mikið fagnaðarefni að hægt sé að hefja helgihald að nýju. Messað verður í Dómkirkjunni á sunnudaginn í fyrsta skipti í langan tíma. Slakað hefur verið á sóttvarnareglum. Biðraðir styttast við listasöfnin og hleypa má fólki í búningsklefa líkamsræktarstöðva.

Fagnaðarefni að helgihald hefjist að nýju

Sveinn segir að reglurnar breyti svo að segja öllu því reglubundið helgihald í kirkjum geti hafist að nýju eins og áður en farsóttin skall á. Rafrænar helgistundir hafi verið algengar í kirkjum landsins undanfarið og stórkostlegt hafi verið að fylgjast með því en fátt komi í staðin fyrir samfélagið sem verður þegar fólk fær að hittast aftur. „Það verður þannig að messur byrja alla vega hjá okkur og ég held víðast hvað í kirkjunni á sunnudaginn kemur. “

Fáir hafi verið í Dómkirkjunni síðan í sumar. „Við höfum haft það þannig að fólk hefir jaft aðgang að kirkjunum en reglubndna helgihaldið, sem er í raun og veru hryggjastykkið í starfi kirkjunnar messurnar, það er að komast í gang aftur og það er mikið fagnaðarefni.“

Fleiri mega koma á listasöfnin

Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri í Listasafni Reykjavíkur, segir að rýmkaðar reglur breyti miklu.  „Við höfum verið að telja stíft inn í húsin og fólk hefur þurft frá að hverfa og það hafa verið biðraðir fyrir utan hjá okkur.“ Mikið hefur verið að gera í söfnunum undanfarið og það breyti miklu að geta tekið á móti 150 í stað þess að taka á móti 20. „Við erum mjög bjartsýn. Undanfarnar helgar hafa verið mjög góðar. Gestir sem hafa ekki kosið að bíða hafi þurft frá að hverfa.“ 

Búningsklefar verða opnaðir

Líkamsræktarstöðvar geta nú opna búningklefa sína.
Haraldur Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis segir að breytingin hjá þeim sé ekki eins mikil og hjá hreinum líkamsræktarstöðvum.  „Við erum með mikið af íþróttstarfsemi og  þær rýmkunarreglur sem komu síðast breyttu miklu meiru. En við getum þó, að hluta til, opnað búningsklefana fyrir þeim sem stunda hreina líkamsrækt og við getum líka, að hluta til, opnað tækjasalinn okkar.“  Fólk þarf að skrá sig fyrirfram inn í tækjasalinn því þar er 20 manna hámark.   
 

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV