Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hlutaðist til um lög til að halda auðæfunum leyndum

08.02.2021 - 12:29
epa08928542 (FILE) - Britain's Queen Elizabeth II (L) and Prince Philip, The Duke of Edinburg, leave St. Paul's Cathedral in London, Britain, 10 June 2016 (reissued 09 January 2021). According to Buckingham palace, the royal couple have received vaccinations against COVID-19. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: FACUNDO ARRIZABALAGA - EPA-EFE
Elísabet Englandsdrottning beitti bresku ríkisstjórnina þrýstingi á áttunda áratugnum til þess að geta haldið upplýsingum um raunverulegan auð sinn leyndum. Einkalögfræðingur Elísabetar þrýsti á ráðherra um að hún yrði undanskilin nýrri upplýsingalöggjöf og þyrfti ekki að gefa neitt upp opinberlega um eignarhluti og auðæfi drottningar á grundvelli þess að slík afhjúpun væri vandræðaleg.

Breska blaðið The Guardian greindi frá þessu í gær og byggir á skjölum frá breska þjóðskjalasafninu.

Skjölin sýna að lögfræðingur drottningar talaði fyrir breytingu á frumvarpinu í fjármálaráðuneyti Geoffreys Howes í  ríkisstjórn Edwards Heath. Klausu var skotið inn í frumvarp sem var í meðferð þingsins um að fyrirtæki í eigu þjóðhöfðingja yrðu undanskilin nýrri upplýsingalöggjöf.

Samþykki drottningar valdheimild ekki formsatriði

Guardian segir að dulin valdheimild hafi verið falin í samþykki drottningar. Samþykki drottningar þarf áður en þingið getur samþykkt lagafrumvörp.

Talað hefur verið um að samþykki drottningar sé skaðlaust og innantómt prjál konungsveldisins en rannsókn Guardian þykir sýna fram á að drottningin og lögfræðingar hennar hafi haft veruleg tækifæri til að hlutast til um lagafrumvörp áður en þau komu til meðferðar þingsins, að sögn Thomas Adams, sérfræðingi í stjórnskipunarrétti. 

Skjöl frá 1973 sem geymd voru á breska þjóðskjalasafninu sýni að drottningin óttaðist að frumvarpið gerði almenningi kleift að rýna í fjárhag hennar. Breska krúnan vildi ekki svara spurningum um hvort Elísabet hefði nýtt samþykki drottningar til þess að hlutast til um lögin þegar eftir því var leitað og sagði að samþykki drottningar væri eingöngu formsatriði.

Raunveruleg auðæfi drottningar hafa aldrei verið gerð opinber að fullu en talið er að þau hlaupi á hundruðum milljóna punda.