Getnaðarvarnir veita kynfrelsi

Mynd: Pixabay / Pixabay

Getnaðarvarnir veita kynfrelsi

08.02.2021 - 14:17

Höfundar

Flestir sem stunda kynlíf gera það til að njóta þess og stefna ekki á barneignir. Getnaðarvarnir gefa fólki því kynfrelsi séu þær rétt notaðar. Til er fjöldinn allur af vörnum og þær eru oftast flokkaðar sem getnaðarvarnir með eða án hormóna.

Í hlaðvarpi Klukkan sex er fjallað um getnaðarvarnir. Snædís Inga Rúnarsdóttir, varaformaður Ástráðs kynfræðslufélags læknanema við Háskóla Íslands, er gestur þáttarins. Snædís Inga segir að það skipti miklu máli að vita hvaða getnaðarvarnir eru í boði til að vita hvað hentar hverjum og einum því að það getur verið mismunandi. Val á getnaðarvörn getur farið eftir því hvort viðkomandi er í föstu sambandi eða ekki og verið háð aukaverkunum, aldri eða lífsstíl fólks. Þegar sagt er að getnaðarvörn sé 99% örugg þýðir það að ein af hverjum 100 konum geti orðið þunguð á ári á þrátt fyrir að nota tiltekna getnaðarvörn. Flestar getnaðarvarnir með hormónum koma í veg fyrir að kona hafi egglos. Þar má nefna til dæmis pilluna, hormónalykkjuna, plásturinn, sprautuna og hringinn. Getnaðarvarnir án hormóna eru til dæmis smokkurinn og hettan.

Snædís Inga bendir á að þrátt fyrir að úrval getnaðarvarna sé fjölbreytt komi fáar varnir í veg fyrir kynsjúkdómasmit. Smokkurinn er eina leiðin til að draga úr hættunni á því, sé hann notaður rétt. „Hormónagetnaðarvarnir virka ekkert á það. Þar höfum við í raun bara smokkinn og kvensmokkinn. En hann er náttúrulega ekki í sölu,“ segir Snædís Inga. Kvensmokkurinn er mjúkur pólýuretan-smokkur sem rennt er inn í leggöng konunnar og kemur í veg fyrir að sæði fari inn í leggöngin. Kvensmokkurinn hylur ytri sköp konunnar líka að hluta til. „Ef þú ert að sleikja píku þá getur þú smitast af kynsjúkdómi. En þetta er ekki getnaðarvörn, bara kynsjúkdómavörn“, bætir Indíana við. Snædís segir að þessi kynsjúkdómavörn, sem stundum er kölluð töfrateppið, hafi komið á markaðinn eftir að HIV-faraldurinn hófst. „Þá höfðu samkynhneigðar konur ekkert til að verja sig með. Þetta var einhvers konar leið,“ segir Snædís.

Fyrir gagnkynhneigt fólk er smokkurinn traustasta kynsjúkdómavörnin og nauðsynlegt er að nota hann frá byrjun þannig að slímhúð þeirra sem stunda saman kynlíf snertist ekki. Til að fræðast meira um getnaðarvarnir og kynsjúkdóma má nálgast Klukkan sex hér og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Hægt er að hlusta á þættina Klukkan sex á vefsíðu UngRÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Krakkar horfa oft á mjög gróft klám á skólalóðinni