Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Borrell ýjar að refsiaðgerðum ESB gegn Rússum

08.02.2021 - 01:49
epa08988623 A handout photo made available by the press service of the Russian Foreign Affairs Ministry shows Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (R) and High Representative of the EU for Foreign Affairs and Security Policy, Josep Borrell (L) during a joint news conference following their talks in Moscow, Russia, 05 February 2021. Josep Borrell is on a working visit to Moscow.  EPA-EFE/RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY HANDOUT -- MANDATORY CREDIT -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY
Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, gagnrýnir Rússa fyrir að hafna uppbyggilegum samskiptum og ýjar að mögulegum refsiaðgerðum. Borrell var í tveggja daga opinberri heimsókn í Rússlandi í vikunni. Á meðan á þessari stuttu dvöl hans stóð var stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny leiddur fyrir rétt öðru sinni á skömmum tíma, ákærður fyrir ærumeiðingar, og þrír diplómatar Evrópusambandsríkja reknir úr landi fyrir að vera viðstaddir mótmæli gegn stjórnvöldum og fangelsun Navalnys.

Í bloggfærslu sem Borrell birti skömmu eftir heimkomuna segir hann  fyrirvara- og tilefnislausan brottrekstur diplómatanna á sama tíma og hann var í Moskvu að ræða við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, vera óræka sönnun þess að „Rússar vildu ekki grípa þetta tækifæri til að stofna til uppbyggilegri samskipta við Evrópusambandið.“

Borrell skrifar að sambandið verði að bregðast við þessu á einhvern hátt. Aðildarríkin þurfi að ákveða hver næstu skref verði, „og já, þau gætu falið í sér refsiaðgerðir.“