Stundin okkar rokkar í vetur

Mynd: RÚV / RÚV

Stundin okkar rokkar í vetur

07.02.2021 - 07:48

Höfundar

Ungir og hæfileikaríkir hljóðfæraleikarar láta ljós sitt skína og flytja meðal annars klassíska rokksmellinn Án þín.

Í haust hittum við Elísabetu bassaleikara og bílskúrsbandið hennar og nú er hún mætt aftur til leiks með nýja hljómsveit. Þau Elísabet bassaleikari, Móri gítarleikari, Matthías trommari og Ragnheiður hljómborðsleikari völdu að flytja lagið Án þín sem hljómsveitin Trúbrot gerði vinsælt um árið með söngkonununni Shady Owens í fararbroddi. Auk þess semur hljómsveitin líka sitt eigið lag og texta og flytur í þáttunum.  

Stundin rokkar er ein af tíu smáseríum sem sýndar eru í Stundinni okkar í vetur. Í þáttunum fá áhorfendur að kynnast hljóðfærum og sögu rokktónlistar með fróðleik um nokkrar af frægustu rokkhljómsveitum heims. Þannig fá ungir áhorfendur að kynnast hljóðfærum og tónlistarflutningi og fullorðnir geta rifjað upp klassíska slagara.  

Stundin okkar hefst aftur sunnudaginn 7. febrúar kl. 18. Í þessum elsta sjónvarpsþætti landsins eru það krakkar sem stjórna ferðinni. Allir umsjónarmenn þáttanna eru á grunnskólaaldri. Þátturinn samanstendur af fjölbreyttum smáseríum sem fjalla um allt milli himins og jarðar. Einföld matargerð, töfraheimur bókanna, jóga, þrautir og leikir, íþróttir, dans og leikin spennuþáttasería eru dæmi um það sem sýnt verður í Stundinni okkar í vetur og fram á vor.