Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sjálfstæðismenn boða prófkjör í Suðurkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Jónsson Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes Jóhannes
Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi ákváðu á aðalfundi kjördæmaráðs í gær að efna til prófkjörs laugardaginn 29. maí. Þetta er fyrsta prófkjör sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar í haust.

Kjördæmið hefur tíu þingmönnum á að skipa, þrír þeirra eru sjálfstæðismenn, Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason sem allir hyggjast gefa kost á sér.

Eva Björk Harðardóttir núverandi oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps staðfestir í samtali við fréttastofu að hún lýsti yfir framboði á fundinum í gær. Hún kveðst ekki hafa lagt niður fyrir sér hvaða sæti hún stefnir.

Ingvar Pétur Guðbjörnsson, formaður kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins segir næstu skref verða þau að kjörnefnd undirbýr prófkjörið og tilkynnir framboðsfrest.

Hann segist ekki geta úttalað sig um lengd framboðsfrests á þessari stundu en farið verði eftir prófkjörsreglum flokksins. „Þetta er óvenjulegur tími til prófkjörs enda kosningar á óvanalegum tíma.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:

Suðurkjördæmi nær frá Reykjanesi austur í Hvalnesskriður og var myndað með nýrri kjördæmaskipan árið 2000. 

Það er gamla Suðurlandskjördæmið en Hornafjörður bættist við, sem áður var í Austurlandskjördæmi og Suðurnes einnig sem áður tilheyrðu Reykjaneskjördæmi. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV