Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Poppað af list

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sesselja

Poppað af list

07.02.2021 - 09:47

Höfundar

Breakup Blues er önnur stuttskífa Kristin Sesselju. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Hér er komin nútímapoppplata eftir skapalóni Taylor Swift; ákveðin ,stíliseruð og nútímaleg. Kristin Sesselja gaf út plötu fyrir þremur árum síðan, Freckles, en hér má glöggt greina talsverða framþróun. Baldvin Hlynsson vann plötuna með Kristinu, í stað- sem fjarvinnu.

Platan opnar með „FUCKBOYS“, lag sem hefur fengið talsverða spilun og er ekki að undra, eins vel heppnað popplag og þau gerast í raun. Líkt er með „Earthquake“ sem naut svipaðra vinsælda. Þetta eru vel samin popplög, með viðlög, vers, ris og lækkanir á úthugsuðum stöðum og fljúga því inn á öldur ljósvakans.

Baldvin, sem er einn af framtíðarmönnum okkar (stundar nú tónlistarnám í Stokkhólmi) gerir vel í sinni vinnslu, veri það píanóleikur eða annað. Sjá t.d. „Please Don‘t Kiss Me With Your Eyes Open“, hörkuballaða með strengjum og þokkafullum píanóleik. Kristin hleður í vel heppnaða, knýjandi Swift-rödd og landar laginu með glans, sannfærandi flutningur. „Type“ er næst. Þegar ég renndi plötunni í allra fyrsta sinn var ég ekki viss um hana en eftir að hafa legið í henni blasa við manni haganlega samin lög, snaggaraleg eiginlega, þar sem engin óþarfa fita eða dúllur eru að þvælast fyrir. „Type“ er gott dæmi um þetta, lætur lítið yfir sér í fyrstu en er stúttfullt af skemmtilegum molum er nánar er að gáð. Skemmtileg raddbeiting og hér, eins og annars staðar, fær maður að finna fyrir pirringnum, sorginni og ergelsinu sem fylgir því að standa í sambandsslitum. Titillagið er rafknúnara en restin – og fínt sem slíkt – og slúttað er með „What Would I Do Without You?“ sem ber að svipuðum brunni og platan öll.

Það er heilnæmt öryggi hérna, þetta er vel erlendis á köflum, en fyrst og fremst er þetta tandurhreint og blygðunarlaust popp sem tikkar í flestöll box sem tikka þarf í.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kristín Sesselja - Breakup Blues